Heimir fagnar undirritun orkusamnings
Heimir, félag ungra sjálfstæðismanna í Reykjanesbæ, fagnar undirritun orkusamnings Hitaveitu Suðurnesja og Norðuráls en undrast jafnframt yfirlýsingar frá Sól á Suðurnesjum um að íbúar svæðisins hafi sáralitlar upplýsingar fengið um málið. Þetta segir í ályktun sem félagið hefur sent frá sér.
Þar segir ennfremur:
„Fyrir liggur hvar álverið á að vera og unnið er að breytingu á aðalskipulagi Reykjanesbæjar og Garðs vegna þess. Svæðið í Helguvík er svo gott sem klárt til notkunar og því ljóst að lítil sem engin umhverfisröskun verður þar. Nú þegar hefur verið ákveðið að leggja ekki háspennulínu þvert yfir Reykjanestá og leitast verður við að leggja strenginn í jörðu þar sem því verður komið við og er það í samræmi við stefnu Sjálfstæðisflokksins. Stærð álversins liggur fyrir og í hvernig áföngum uppbyggingin mun eiga sér stað. Tímarammi hefur verið settur til að reyna vinna gegn þensluáhrifum. Orkusamningur við Hitaveitu Suðurnesja liggur fyrir. Skýrsla um mat á umhverfisáhrifum hefur verið unnin og verður hún kynnt í næsta mánuði.
Heimir minnir á að um 700 störf glötuðust og HS missti mikil viðskipti við brotthvarf Varnarliðsins. Ljóst er að margir hafi horfið til tímabundinna starfa, meðal annars til höfuðborgarsvæðisins, og bíða nú tækifæra á svæðinu til að snúa aftur til vinnu hér. Sjálfstæðismenn gera sér grein fyrir að álver leysir ekki atvinnumál allra þessara einstaklinga, en það er mjög áhugaverður og góður kostur sem leiðir af sér vel launuð og fjölbreytt störf. Heimir minnir einnig á að þetta mál var rætt fyrir sveitastjórnarkosningarnar í vor og meðal annars á stefnuskrá Sjálfstæðisflokksins í Reykjanesbæ þar sem flokkurinn hlaut yfirburða kosningu."
Mynd: Fyrirhugað álver í Helguvík.