Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Aðsent

Heimanámsþjálfun  – námstækni
Sunnudagur 15. nóvember 2020 kl. 07:31

Heimanámsþjálfun – námstækni

Námstækni er hugtak sem notað er yfir árangursríkar aðferðir sem felast í því að afla sér þekkingar og leikni í námi. Íslensk orðabók skilgreinir námstækni sem námsgrein „þar sem góð vinnubrögð við nám eru kennd“. Á fyrsta áratugi 21. aldar var einnig orðið námsvenja notað um hugtakið námstækni, um þær venjur sem námsmaður notar í námi sínu.

Fjögur atriði eru til grundvallar þegar kemur að námstækni og þau eru:

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Að vinna skipulega.

Að ákveða hvað skal læra.

Að ákveða hvenær eigi að læra.

Að ákveða hvernig skal læra.

Það skiptir gríðarlega miklu máli í skipulagi náms að víkja ekki frá þeirri ákvörðun að sinna eigin námi!

Skipulag

Mín reynsla er sú að í skipulagi þrífast börnin best! Heima fyrir getum við foreldrar og/eða forráðamenn skapað rútínu og skipulag í kringum heimanámsþjálfun, æfingar og tómstundastörf barna okkar og yfir þau verkefni sem börnin okkar þurfa að sinna heima sem hluti af þátttöku í heimilislífi fjölskyldunnar.

Börn og unglingar í grunnskóla bera ekki lengur ábyrgð á því að skrá niður hvað þau þurfa að þjálfa heima í námi. Sú þróun hefur átt sér stað að kennarar bera algjöra ábyrgð á því, með skráningu í heimavinnuáætlun í Mentor. Í mörgum grunnskólum hér í Reykjanesbæ hefur sá háttur verið á að kennarar eigi að skrá í hana fyrir klukkan fjögur á daginn, upp á skipulag heimilanna. Í flestum tilfellum vita þó nemendur á unglingastigi og í eldri bekkjum miðstigs hvað eigi að vinna heima/ljúka heima.

Sá fyrirvari er þó á að börnin okkar þurfa að halda skipulag í kringum Mentor þegar um stærri verkefni er að ræða, próf og/eða námslegt ferli sem spannar yfir lengri tíma. Við slíkar aðstæður þarf barnið/unglingurinn okkar að nýta þessi fjögur atriði sem talin eru upp hér að ofan til þess að skipuleggja námið heima fyrir. Í því felst að búa til áætlun/skipulag og tiltaka hvað eigi að læra á hverjum degi fyrir sig.

Ein jákvæð breyting í þessu samhengi, sem ég hef orðið vör við, er upptaka áætlana í stærðfræði á unglingastigi. Slíkt skipulag og vinnubrögð líkjast helst því sem tekur við á næsta skólastigi, þ.e. í framhalds- og fjölbrautaskóla, svokölluðum kennsluáætlunum sem nemendur eiga að vinna eftir. 

Í skipulagi og áætlanagerð er nauðsynlegt að tiltaka hvenær eigi að setjast niður til þess að sinna heimanámsþjálfun, í hversu langan tíma skal þjálfa hverju sinni og hvernig eigi að þjálfa. Þegar spurningunni hvernig á að þjálfa er velt upp, þá þarf að skoða aðra hlið á námstækni sem er aðferðir og tækni. Hvaða aðferð og tækni er best að beita á það verkefni sem staðið er frammi fyrir. Ég mun fjalla sérstaklega um aðferðir og tækni í næsta pistli.

Það kemur í okkar hlut, foreldra og/eða forráðamanna, að bera ábyrgð á því að heimavinnuáætlun sé fylgt. Í lögum um grunnskóla 2008 nr. 91, segir í 19. grein að „foreldrar bera ábyrgð á námi barna sinna og ber þeim að fylgjast með námsframvindu þeirra í samvinnu við þau og kennara þeirra“.

Nauðsynlegt er að fylgjast með á Mentor daglega þegar nemendur hefja nám á miðstigi og út unglingastigið. Á miðstigi fá nemendur oft á tíðum sinn eigin aðgang að Mentor í gegnum skólann sinn og geta því fylgst með heimavinnuáætlun í samvinnu við foreldra/forráðamenn sína. Þannig kemur inn sú sameiginlega ábyrgð að bæði nemandinn sjálfur og foreldrar/forráðamenn hans fylgist með og sinni þeim verkefnum/fyrirmælum sem lögð eru til í námi. Það kemur í hlut skólans að upplýsa nemendur og foreldra/forráðamenn reglulega um námsframvindu og eins ef við getum gert betur gagnvart námslegri vinnu heima fyrir. Mikilvægt er að við, foreldrar/forráðamenn, tökum frumkvæði og höfum samband við skólann okkar ef áhyggjur vakna af námslegri framvindu barns/barna okkar.

Jóhanna Helgadóttir,
grunnskólakennari, mannauðsráðgjafi og verkefnastjóri.