Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Aðsent

Heima er best
Miðvikudagur 10. nóvember 2010 kl. 08:29

Heima er best


Á málfundi FFGÍR sem haldin var í október settust foreldrar og fagfólk saman og veltu fyrir sér hvað foreldra og börn geta gert heima til að bæta námsárangur í skólunum. Umræðan fór um víðan völl og meðal annars að stuðningur stórfjölskyldunnar væri jafnvel vanmetinn í okkar samfélagi. Börn eru lengi í skólanum fram eftir degi og því skiptir máli að regla sé á hlutunum og þau viti til hvers er ætlast af þeim þegar skóladegi lýkur.


Niðurstaða fundarins um hvað foreldrar eða forráðamenn geta gert heima var eftirfarandi:

- Gefðu barninu tíma og athygli, tryggðu góðan svefn og góða næringu.
- Kenndu barninu að taka ábyrgð á eignum sínum og annarra.
- Hrósaðu barninu fyrir sjálfstæð vinnubrögð og hvettu það áfram í náminu þannig að það sjái tilgang með því.
- Kíktu á mentor á föstudegi og skoðaðu heimavinnu með barninu. Gerðu heimanámið spennandi og áhugavert með virkri þátttöku. - Ef þörf er á hafðu umbunarkerfi heima.
- Sýndu barninu að heimalærdómur getur verið gæðastund með þér. Veittu barninu aðhald og hafðu námshvetjandi umhverfi heima.
- Gerðu lestur áhugaverðan með því að lesa með og fyrir barnið. Sittu yfir heimanámi með yngri nemendum.
- Heimilið er besta kennslurýmið, notaðu t.d. matargerð fyrir stærðfræðina.
- Það á að vera fastur liður að ræða um skóladaginn og líðan barnsins í skólanum.
- Settu reglur um hvenær á að læra heima og kenndu barninu að skipuleggja sig
- Sýndu náminu áhuga og kannski þú getir bætt við einhverjum fróðleik.
- Fáðu ömmur og afa í lið með þér. Það hjálpar t.d. í lesskilningi.
- Veittu barninu öryggi, ást og umhyggju. Gefðu því gott skólanesti, klæddu það eftir veðri og aðstæðum.
- Skapaðu rólegar aðstæður, finndu áhuga barnsins og miðaðu við þitt barn. Gerðu kröfur eftir forsendum þess.

Foreldrar eru í lykilhlutverki í lífi barna sinna og þar er nám og menntun ekki undanskilin. Við hjá FFGÍR hvetjum alla foreldra til að kynna sér námsefni barnsins og til hvers er ætlast af því. Veitið barninu það skjól sem það þarf heima og aðstæður til að stunda heimanámið.
Við viljum að börnin okkar fái að blómstra í skólasamfélaginu, örugg og auðmjúk, tilbúin að læra meira í dag en í gær. Barnið á að vera fullviss um að hvernig sem dagurinn líður í skólanum þá er stuðningur og skjól heima.

Frá FFGÍR

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024