Heilsugæsla Heilbrigðisstofnunar Suðurnesja

Fyrir kosningar er algengt að framboð ætli að beita sér að því að Reykjanesbær taki yfir rekstur heilsugæslu HSS. Þetta er ekki kosningaloforð Samfylkingarinnar einfaldlega vegna þess að það að taka yfir heilsugæsluna er mjög dýrt og þetta er mjög þungur rekstur. Skuldahlutfall Reykjanesbæjar er á réttri leið en það að taka yfir svona rekstur á þessum tímapunkti er ekki raunhæft og ekki í hag sveitarfélagsins okkar. 
 
Meginmarkmið heilsugæslu HSS er að tryggja að Suðurnesjamenn fái grunnþjónustu í sínu samfélagi, að sinna bráðaþjónustu, vaktþjónustu og forvarnarstarfi. Ljóst er að stofnunin hefur verið í erfiðleikum undanfarin ár vegna fjárskorts, húsnæðisskorts og nú skorti á fagfólki til starfa. 
 
Þegar rýnt er nánar í málefni stofnunarinnar kemur í ljós langvarandi fjársvelti. Stofnunin fær ein lægstu fjárlög til heilbrigðisstofnana á landinu, lægstu fjárframlög til íbúa tengt heilsugæsluþjónustu auk þess sem stofnunin fær seint eða ekki aukafjárveitingar í takt við aukið umfang eins og til að mynda stóraukinn íbúafjölda auk gríðarlegri aukningu farþega um Keflavíkurflugvöll. 

Allt kallar á aukið fjármagn
Eins og staðan er í dag skortir HSS að lágmarki 200 milljónir bara til að uppfylla núverandi þjónustuþörf. Samkvæmt fjárframlögum 2018 til heilbrigðisstofnana, eru framlög á hvern íbúa lægst á Suðurnesjum. Ef framlögin eru borin saman við íbúafjölda eru Suðurnesin með þriðja mesta íbúafjölda á landinu, um 24.000 manns, en fær næst minnstu fjárlögin.
 
Talsverð aukning hefur verið í starfsemi HSS. Ef tekið er til dæmis starfsemi Slysa- og bráðamóttöku þá hafa heildarsamskipti deildarinnar aukist úr 7.207 samskiptum í 14.861 milli áranna 2012 og 2017 eða nær tvöfaldast á fimm árum. 
 
Oft er vísað til Akureyrar varðandi yfirtöku á heilsugæslu en Akureyrarbær rak heilsugæsluna þar í nokkur ár. Talsvert tap var á rekstrinum og ákvað ríkið að gera ekki nýjan samning við Akureyrarbæ árið 2015. Orðrétt kemur fram í ársskýrslu Akureyrarbæjar frá árinu 2013:
 
„Reynt hefur verið að vinna út frá þeirri hugmyndafræði að allir íbúar eigi fastan heimilislækni og það fyrirkomulag talið bæði faglega og fjárhagslega hagkvæmast. Því miður hafa aðstæður ekki boðið upp á þetta síðustu ár og hefur bið eftir tímum hjá læknum enn lengst. Fer fjöldi þeirra sem ekki eiga fastan heimilislækni vaxandi ...“

Gerum HSS að máttarstólpa
Það sem við í Samfylkingunni ætlum að gera er að halda áfram að berjast fyrir hærri fjárlögum til stofnunarinnar með því að vekja athygli þingmanna, velferðarráðherra og Alþingis á stöðu stofnunarinnar og krefjast þess að fá fjárlög í takt við umfang og verkefni hennar. 
 
Við þurfum ekki að taka yfir heilsugæslu HSS, við þurfum að halda áfram og setja enn meiri kraft í að vekja athygli á stöðu stofnunarinnar og fá áheyrn innan Alþingis af hverju stofnunin fái ekki hærri fjárlög og bætingar líkt og aðrar stofnanir fái annars staðar á landinu. Við þurfum að standa vörð um stofnunina okkar og gera HSS að máttarstólpa samfélagsins okkar á Suðurnesjum.
Því við Suðurnesjamenn eigum betra skilið.
 
Guðný Birna 
skipar 2. sæti á S-lista Samfylkingar og óháðra