Heilsugæsla á hálum ís
Enn á ný virðist læknadeilan á Suðurnesjum komin í algjöran hnút. Við sem sátum borgarafundinn í Reykjanesbæ fyrir skömmu, gerðum okkur vonir um að takast mætti að leysa þessa deilu og vonir okkar jukust enn meir þegar læknar samþykktu að fresta þessum aðgerðum um 3 mánuði og nýta þann tíma sem skapaðist til að finna lausn á grundvelli hugmynda sem virtust koma frá ráðuneytinu sjálfu.Ég lagði þann skilning í samkomulagið að menn slíðruðu sverðin og færu af alvöru í að ná samkomulagi. Þetta útspil ráðherra/forstjóra HS um að breyta ráðningarkjörum og endurráða aðeins hluta læknanna er algjörlega óskiljanlegt. Sá ágæti hópur lækna sem tekist hafði með herkjum að ná hingað suður, er á nú leið eitthvað annað. Það kostaði vissulega peninga að ná þeim og þessi umframkeyrsla sem fyrrverandi forstjóri var látinn fjúka fyrir, er að hluta til kominn vegna þessa. Í þessu ljósi er skiljanlegt að læknar sætti sig ekki við þetta og hafi uppi áform um að koma ekki aftur til starfa. Við höfum sjálfsagt öll okkar skoðanir á kröfum lækna, en á þessari stundu finnst mér þær ekki skipta máli, heldur hitt, að þeir töldu sig hafa gert samkomulag við ráðherra um að koma til starfa og fresta aðgerðum. Það er kannski verið að rétta við halla HS með því að halda læknum utandyra. Ég tel að að ég mæli fyrir munn flestra Suðurnesjamanna þegar ég krefst þess að látið verði af þessari vitleysu og heilsugæslunni komið í eðlilegan rekstur. Við sem skattgreiðendur eigum heimtingu á því. Ríkið hefur þessa þjónustu á sinni könnu og ber fulla ábyrgð á að hún sé veitt. Það nægir ekki að ráðherra segi bara Sorry.
Guðbrandur Einarsson
Guðbrandur Einarsson