Heilsuferðamennska: græn stóriðja á Ásbrú
Uppbygging á heilsutengdri þjónustu á Ásbrú hefur vakið nokkra athygli að undanförnu. Því vildu undirritaðir fjalla í stuttri grein um aðkomu og áhuga sveitarfélaga á Reykjanesi á verkefninu.
Hugmyndir um uppbyggingu heilsuþorps á Ásbrú er byggð á nýlegri greiningu á samkeppnishæfni svæðisins. Greiningin sýndi gríðarleg tækifæri fyrir Íslendinga á að bjóða heilbrigðisþjónustu við erlenda ríkisborgara, svonefnda heilsuferðaþjónustu.
Mannauður kvenna
Það kann að skjóta skökku við að þegar rætt sé um atvinnusköpun komi heilbrigðistörf til umræðu. Við erum öllu vanari umræðum um „harðari“ verkefni svo sem vegagerð og stóriðju. En Íslensk heilbrigðisþjónusta er með því besta sem gerist í heiminum og við búum að miklum mannauði á þessu sviði. Þessi mannauður er reyndar sannkallaður kvennauður en á Heilbrigðisstofnun Suðurnesja, starfa til dæmis 27 karlar og 187 konur. Við erum stoltir af þessum kvennauði og viljum að þær njóti fleiri tækifæra til þess að nýta sína þekkingu og dugnað.
Ekki bara skurðaðgerðir
Þó svo að í upphafi hafi verið litið til skurðstofa á HSS og nú til sjúkrahússins á Ásbrú eru skurðaðgerðirnar sjálfar í raun bara hluti þeirrar heildrænu meðferðar sem stefnt er að. Að lokinni aðgerð tekur við fjölbreytt endurhæfing þar sem læra þarf á nýjan lífstíl, allt frá mataræði og líkamsrækt, til sálfræðilegrar meðferðar. Þetta þekkja Íslendingar frá Hvergerði og Reykjalundi.
Fjölbreytt uppbygging
Starfsemi sjúkrahúsins styrkir grundvöll annarra aðila, og eykur líkur á því að nýir aðilar komi að uppbyggingu á Reykjanesi. Uppbyggingin veitir Keili miðstöð vísinda, fræða og atvinnulífs mikil tækifæri til uppbyggingar og þróunar á heilsuskóla sínum. Með starfseminni kemur á svæðið mikil þekking og þörf fyrir miðlun hennar, bæði til starfsfólks sem og beint til sjúklinganna sjálfra. Litið er til samstarfs við Bláa Lónið sem hluta af aðdráttarafli Heilsuþorps með öflugu samstarfi þar á milli. En þar hefur verið stunduð heilsuferðamennska um árabil í formi lækningarlindar Bláa Lónsins. Samhliða munu svo aukast umsvif nærliggjandi þjónustufyrirtækja því litið er til þess að bæði sjúklingar og aðstandendur þeirra sæki sér afþreyingu og þjónustu í nærumhverfinu á meðan dvöl þeirra stendur.
Það er bjargföst trú okkar sem þetta skrifa að uppbygging sjúkrahúss að Ásbrú sé mikið framfaraskref fyrir Reyknesinga og landsmenn alla sem muni koma til með að skila miklum ábata fyrir þjóðfélagið.
Róbert Ragnarsson, bæjarstjóri í Vogum
Sigurður Valur Ásbjarnarson, bæjarstjóri í Sandgerði
Ásmundur Friðriksson, bæjarstjóri í Garði
Árni Sigfússon, bæjarstjóri í Reykjanesbæ