Bláa Lónið - 01apíl.
Bláa Lónið - 01apíl.

Aðsent

Heilsuefling starfsmanna - Vellíðan í vinnu
Mánudagur 5. desember 2016 kl. 09:30

Heilsuefling starfsmanna - Vellíðan í vinnu

- Aðsend grein frá stjórnendum Akurskóla

Það fyrsta sem fólk spyr oftast um þegar það kynnist nýjum aðila er; hvað gerir þú? Starfið okkar er ekki bara til að afla sér tekna heldur er það hluti af sjálfsmynd okkar, skilgreinir okkur. Það er því mikilvægt að hver og einn velji sér starf sem hefur tilgang. Þegar starfsvettvangur hefur verið valinn er mikilvægt að starfsmaður upplifi vellíðan á vinnustað, virðingu og viðurkenningu samfélagsins.

Við í Akurskóla höfum sett góðan starfsanda og vellíðan í vinnu sem eina af megin áherslum skólaársins eins og kemur fram í starfsáætlun skólans. Andleg- og líkamleg vellíðan skiptir megin máli fyrir einstaklinga sem vinna með börnum. Ef hugað er að þessum þáttum eru starfsmenn skólans betur í stakk búnir að takast á við þau fjölbreyttu og krefjandi verkefni sem koma upp á ólíklegustu tímum.
Í skólanum er því markvisst unnið að heilsueflingu starfsmanna. Við bjóðum allt skólaárið upp á fjölbreytta fyrirlestra sem tengjast andlegri líðan og heilsu. Í október kom Sigríður Hulda Jónsdóttir hjá SHJ ráðgjöf með áhugaverðan fyrirlestur um styrkleika og starfsánægju fyrir alla starfsmenn skólans. Í nóvember verður síðan boðið upp á fyrirlestur frá Ragnheiði Guðfinnu Guðnadóttur vinnusálfræðingi um streitu og hvernig best er að vinna gegn henni.
Þá er einnig boðið upp á fjölbreytta hreyfingu og viðburði allt skólaárið fyrir starfsmenn. Á þessu ári höfum við farið og púttað og á dagskrá er danskennsla, vatnsleikfimi, gönguferð, golf og zúmba svo eitthvað sé nefnt.

Public deli
Public deli

Hluti af því að líða vel í vinnunni er að tilheyra hópi og gera eitthvað skemmtilegt saman. Við í Akurskóla hófum skólaárið á því að fara í skemmtilega ferð á starfsdögum í ágúst. Ferðin hófst á fallegum stað í höfuðborginni í litlu húsi umkringdu háum öspum, Mýrarkoti. Þar áttum við góða stund við vinnu og síðan buðu stjórnendur upp á grillaða hamborgara. Eftir þetta lá leið okkar á Bessastaði þar sem hr. Guðni Th. Jóhannesson forseti Íslands tók á móti okkur. Það var skemmtileg upplifun að vera fyrsti starfsmannahópurinn sem nýr forseti tók á móti og fá í leiðinni leiðsögn um Bessastaði.

Það má segja að þessi ferð hafi hrist starfsmannahópinn saman og sú jákvæða upplifun sem við fengum af ferðinni hafi ýtt okkur af stað inn í skólaárið með gleði og jákvæðni í hjarta.

Vellíðan í vinnu felst líka í vinnuaðstæðum starfsmanna. Við höfum á undanförnum árum reynt að huga að þeim þætti líka. Í ár var farið í að huga að lýsingu og umhverfi á kaffistofu starfsmanna og hafa þær breytingar sem þar hafa verið gerðar mælst vel fyrir. Einnig er boðið upp á fjölvítamín og lýsi á kaffistofunni.

Á góðum vinnustað geta ólíkir einstaklingar unnið vel saman og tekið tillit til hvers annars. Þeir finna til hvers er ætlast af þeim og markmið eru skýr. Hver og einn hefur þó ákveðið sjálfstæði og starfsmönnum er treyst til að vinna vinnuna sína á faglegan hátt. Á vinnustaðnum ríkir lýðræði, markmið rædd og ákvarðanir teknar í samráði. Þessi vinnubrögð smitast svo út til nemenda okkar og við leyfum hverjum og einum að njóta sín á sinn hátt.
Nú þegar Reykjanesbær hefur gert samning um að verða Heilsueflandi samfélag hvetjum við stjórnendur Akurskóla fleiri stofnanir Reykjanesbæjar til að huga að vellíðan starfsmanna í vinnu og heilsueflingu þeirra.

Sigurbjörg Róbertsdóttir skólastjóri, Gróa Axelsdóttir aðstoðarskólastjóri og Sólveig Silfá Karlsdóttir deildarstjóri.