Karlakór Kef kertatónleikar
Karlakór Kef kertatónleikar

Aðsent

Heilsu og öryggi Suðurnesjamanna ógnað
Mánudagur 1. febrúar 2010 kl. 16:19

Heilsu og öryggi Suðurnesjamanna ógnað

- Niðurskurður á HSS

Nú hefur komið í ljós að skurðstofu HSS verður lokað 1. maí næstkomandi vegna niðurskurðarkröfu heilbrigðisráðuneytisins. Þá hefur fleira starfsfólki verið sagt upp störfum og hugsanlega gæti sykursýkismóttöku verið lokað um næstu mánaðamót og starfsfólki sálfélagsþjónustu sagt upp. Fyrirhugað er að loka fyrir rannsóknir sem gerðar eru í nýju tölvusneiðmyndatæki, sem nýlega var tekið í notkun og var gjöf frá Kaupfélagi Suðurnesja. Á tæpum 5 vikum hafa verið gerðar um 200 rannsóknir með nýja tölvusneiðmyndatækinu.


Einnig stendur til að skerða læknaþjónustu þannig að helgarvaktir verða eingöngu fyrir neyðartilvik. Í þessu felst að einstaklingar sem eru ekki í lífshættu þurfa að leita til Reykjavíkur með öll veikindi eða minniháttar meiðsli. Nú þegar er mönnun á heilsugæslu í algjöru lágmarki. Einungis sex heilsugæslulæknar og þrír almennir læknar starfa nú við heilsugæslu en ættu að vera milli sautján miðað við íbúafjölda á Suðurnesjum. Ástæðan fyrir þessu er að það fást ekki heilsugæslulæknar í vinnu hér á landi því þeir eru margir fluttir af landi brott!

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024


Hjúkrunarfræðingar og ljósmæður á sjúkrahússviði og heilsugæslusviði HSS hafa í fjöldamörg ár verið með næstlægstu laun á landsvísu, einnig hefur mannekla hrjáð þessa stofnun í áratugi og álag því verið mikið á þeim. Fram kemur í skýrslu heilbrigðisráðuneytisins „Endurskipulagning sjúkrahúsþjónustu á Suðvesturhorninu“ að framlegð starfsfólks HSS sé meiri en á sambærilegum stofnunum. Samanborið við aðrar stofnanir sýna tölur að meira álag er á hjúkrunarfræðinga sem starfa á HSS.


Hverjar verða afleiðingarnar fyrir samfélagið þegar skurðstofa HSS lokar?

Fæðandi konur eiga ekki kost á keisaraskurði. Allar áhættufæðingar þurfa því að flytjast til Reykjavíkur. Í áhættufæðingum felst m.a. meðgöngusykursýki, of hár blóðþrýstingur, fyrri saga um keisara, fylgjulos, meðgöngueitrun, og margt fleira. Mætti ætla að 2/3 fæðinga á HSS myndu flytjast til Reykjavíkur.


Ef enginn svæfingarlæknir/svæfingarhjúkrunarfræðingur starfar á HSS þá er ekki völ á mænurótardeyfingu og mikilvægur hlekkur í bráðaaðstæðum hverfur.


Engar aðgerðir verða gerðar hvort sem þær eru bráðar eða val einstaklingsins.


Samsetning neyðarteymis sem virkjað er innanhúss breytist.


Neyðaráætlun flugslysa og hópslysa breytist, sem þýðir breytingu á viðbrögðum almannavarna.


Líklegar afleiðingar af uppsögnum lækna á skurðstofu er sú að þeir einfaldlega leiti annað vegna þess að störfin þeirra hér verða ekki nógu faglega krefjandi.


Samsetning deildanna breytist þar sem ekki verða lengur skurðsjúklingar. HSS mun ekki geta tekið á móti skurðsjúklingum eins fljótt og nú tíðkast og þar af leiðandi þurfa Suðurnesjamenn að liggja lengur inni á Landspítala.




Hverjar verða afleiðingarnar fyrir samfélagið við niðurskurð á heilsugæslu?


Skert læknaþjónusta um helgar. Suðurnesjamenn verða að leita sér læknishjálpar annars staðar nema í lífsógnandi tilvikum.


Ef sykursýkismóttaka lokar. Fimm hundruð manns nýta sér þessa þjónustu á HSS og þyrftu því að leita annað þar sem ekki er hægt að vísa þeim til heilsugæslulæknis á HSS vegna læknaskorts.


Ef sálfélagsleg þjónusta leggst af. Ekki verður hægt að vísa skjólstæðingum hennar til heilsugæslulæknis á HSS vegna læknaskorts. Aukning hefur orðið á þörf fyrir þessa þjónustu síðustu misseri vegna versnandi aðstæðna í þjóðfélaginu.


Ef ekki verður hægt að framkvæma rannsóknir á HSS nema á dagvinnutíma, hvort sem um er að ræða blóð-, þvag-, eða myndrannsóknir (röntgendeild). Þetta þýðir til dæmis að ekki verður hægt að athuga hvort um sé að ræða beinbrot eftir slys og einstaklingar með kviðverki þurfa að leita sér aðstoðar annars staðar utan dagvinnutíma þar sem ekki verður mögulegt að greina á milli hægðatregðu og botnlangabólgu!


Ef aðeins verður einn heilsugæslulæknir á hverri vakt um helgar. HSS hefur þá aðeins bolmagn til að sinna einum bráðveikum einstaklingi í einu, þar sem læknir þarf oftar en ekki að fylgja slíkum sjúklingum til Reykjavíkur.


Ef aðeins einn heilsugæslulæknir verður á vakt um helgar eru möguleikar hans á að bregðast við slysi, þar sem fleiri en einn eru slasaðir, takmarkaðir. Svo ekki sé talað um sjúklingana sem lenda í slíkum aðstæðum.


Forsvarsmenn HSS og hollvinir hafa margsinnis bent á að rangt hafi verið gefið í fjöldamörg ár og HSS verið fjársvelt. Starfsemi stofnunarinnar hefur verið háð gjöfum velunnara! Berlega hefur komið í ljós að þessar staðreyndir skipta engu máli, enn og aftur á að skera niður og íbúar svæðisins og starfsfólk HSS eiga að líða fyrir.


Því mótmælum við, íbúar Suðurnesja, hver kyns skerðingu á þjónustu sem Heilbrigðisstofnun Suðurnesja veitir okkur og teljum slíkt ógna okkar lífsgæðum og öryggi.


Undirskriftalistar munu liggja frammi víðsvegar á Suðurnesjum og er fólk hvatt til að skrifa undir. Einnig er hægt að skrá sig á undirskriftalista á vef Víkurfrétta: http://www.vf.is/hss/

Meðfylgjandi er ræða sem Konráð Lúðvíkssonar yfirlæknir fæðingar- og kvensjúkdómadeild hélt í morgun á starfsmannafundi HSS.

Starfsmenn HSS og íbúar á Suðurnesjum

Guðrún Sigríður Jóhannesdóttir
Guðrún Ösp Theódórsdóttir
Ingibjörg Salóme Steindórsdóttir
Sonja Middelink