Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Aðsent

Heilsu- og umhverfisvernd eða kerfisvernd
Laugardagur 23. nóvember 2019 kl. 14:57

Heilsu- og umhverfisvernd eða kerfisvernd

Á þeim tíma er rekstrarleyfi kísilvinnslu í Helguvík var veitt, voru hann Árni og hann Böðvar ráðamenn í bæjarstjórn Reykjanesbæjar. Hún Ragnheiður og hún Sigrún voru ráðherrar iðnaðar- og umhverfismála. Hún Kristín Linda og hún Ásdís Hlökk forstjórar Umhverfis- og Skipulagsstofnunar. Öll voru þau grandalaus fyrir afleiðingunum af framleiðslu kísils. Við, eins og þau, trúðum að eiturefnamengunin, sem kemur frá framleiðslunni væri óveruleg, enda fullyrt að samskonar verksmiðjur væru starfræktar innan bæjarmarka norskra bæja og af þeim steðji engin hætta fyrir íbúa í nágrenninu. Með þeirri fullyrðingu var eiturefnaváin afgreidd.

Leyfisveitingin mistök

Annað kom síðar í ljós. Eituráhrifin frá kolabrennslunni, sem þarf við kísilframleiðsluna, voru mun sterkari og meiri en hafði verið gefið í skyn. Í ljós kom að leyfisveitingin til kolabrennslunar voru mistök. Já, ráðamenn bæjarfélagsins, ráðherrarnir og forstjórar Umhverfis- og Skipulagsstofnunar gerðu sér ekki grein fyrir, frekar en flestir íbúar bæjarins, hvað lítið þarf af þessum eiturefnum til að hafa áhrif á heilsu fólks. Mun minna en lög og reglugerðir leyfa. Nýjustu niðurstöður rannsókna sýna að eiturefnakokteillinn frá kolabrennslu er afar fjölbreyttur og öll efnin eru skaðleg heilsu og umhverfi þeirra sem búa þar nærri.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Um tvennt að velja

Nú er nýtt fólk komið til áhrifa í pólitíkinni. Reynslan og vitneskjan um mengunina frá kísilverum er einnig mun betri. Hjá Reykjanesbæ eru það Jóhann Friðrik, Friðjón og Guðbrandur, sem fara fyrir meirihluta bæjarstjórnar. Ráðherrarnir eru Þórdís Kolbrún R. í ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðuneyti og Guðmundur Ingi ráðherra umhverfis- og auðlindaráðuneytis. Þetta fólk sem nú er við stjórnvölin í pólitíkinni mun ráða för. Þau munu þurfa að hafa til hliðsjónar skýrsluna sem ríkisendurskoðun gaf út í maí 2018 og gæta vel að vinnubrögðum sinna ráðgjafa og stofnanna, ásamt því að virða í hvívetna öll lýðheilsusjónarmið.

Þær Kristín Linda og Ásdís Hlökk forstjórar Umhverfis- og Skipulagsstofnunar, auk Kjartans Más bæjarstjóra Reykjanesbæjar sjá bara um, með sínu fólki, að taka á móti umsóknum um hin ýmsu verkefni, eins og t.d. nýrri matsáætlun og frummatsskýrslu fyrir kísilverið í Helguvík og umsókn um breytingu á gildandi svæðisskipulagi og byggingarreitum á kísilvers lóðinni. Eftir að nefndir og starfsmenn þeirra hafa passað að allir pappírar og gögn séu til staðar og nákvæmlega rétt útfyllt fyrir kerfið, verða eftir tvö álitamál, sem aðeins pólitíkin getur valið um. Því þegar öllu er á botninn hvolft mun nýtt starfsleyfi kísilversins snúast um heilsu- og umhverfisvernd annars vegar eða um kerfisvernd hins vegar. Valið er þar á milli.

Reykjanesbæ 7. nóv. 2019
Tómas Láruson.