Heilsu- og forvarnarvika með syfjuðum og stressuðum þátttakendum
Líkurnar á því að þú, lesandi góður, sért í vaktavinnu eða hafir verið í vaktavinnu eru mjög miklar enda er hlutfall þeirra sem stunda vaktavinnu einna hæst hér á Suðurnesjum. Skýringuna má finna í fjölda þeirra sem vinna í Flugstöð Leifs Eiríkssonar enda er flugstöðin lang stærsti vinnustaður svæðisins. Margar aðrar stéttir stóla einnig á vaktavinnufyrirkomulag og má þar helst nefna heilbrigðisstarfsfólk, lögreglumenn og slökkviliðsmenn sem dæmi. Skaðsemi langvarandi vaktavinnu á heilsu er þekkt og minnir um margt á þau áhrif sem viðvarandi streita veldur líkama og sál. Erlendar rannsóknir sýna að þeir sem stunda vaktavinnu eru líklegri til þess að vera of þungir, þjást af sykursýki, efnaskiptavillu, meltingarvandamálum og þunglyndi svo eitthvað sé nefnt. Tíðni vinnuslysa er einnig áhyggjuefni en erlendar rannsóknir benda til þess að hún sé 25-30% hærri í vaktavinnu og eykst enn ef vaktir eru langar.
Vaktavinna hefur líkamleg, andleg og félagsleg áhrif
Í niðurstöðum íslenskrar rannsóknar sem gerð var árið 2014 kom fram að andleg heilsa vaktavinnufólks er lakari en dagvinnufólks, en svo virðist sem það fólk upplifi frekar depurð, kvíða og áhyggjur. Rannsóknin sýndi einnig að svefnvandamál voru tíðari hjá vaktavinnufólki en vaktavinnusvefnröskun (shift work sleep disorder) á sér stað þegar rof verður í eðlilegum gangi lífsklukkunnar sem síðan orsakar svefnleysi og viðvarandi syfju. Vaktavinna hefur ekki bara neikvæð áhrif á líkamlega og andlega heilsu heldur virðist vaktavinnufólk einnig líklegra til þess að vera óánægt í samböndum og borðar frekar óhollari mat en fólk sem stundar dagvinnu.
Mikið álag á starfsfólk á svæðinu
Eins og áður segir stunda margir starfsmenn á Suðurnesjum vaktavinnu og hefur það hlutfall aukist í samræmi við aukinn ferðamannafjölda. Margt bendir til þess að þeir starfsmenn sem taka virkan þátt í þeirri gríðarlegu þenslu sem verið hefur í ferðaþjónustu séu að kikna undan álagi. Starfsmenn ná ekki að hvílast á milli vakta, ná ekki að snúa við sólarhringnum eftir næturvaktir og vinna oft í slæmu vinnuumhverfi. Ljóst er að eitthvað mun láta undan ef áfram heldur sem horfir og endapunkturinn getur orðið kulnun í starfi, veikindi, andlegir kvillar og jafnvel örorka.
Viðhorfsbreyting nauðsynleg
Samfélagið á Suðurnesjum hefur þurft að ganga í gegnum ýmis áföll í gegnum tíðina og alltaf hefur það risið aftur upp sterkara. Í þessu tilfelli er vandamálið ekki tilkomið vegna aflabrests eða brotthvarfs erlendra hermanna heldur vegna skorts á bolmagni til þess að takast á við þenslu sem fá, ef ekki nokkur, dæmi eru um. Til þess að tryggja það að lífsgæði okkar skerðist ekki undir þessum kringumstæðum verðum við að tryggja það að vinnustaðir axli sína ábyrgð gagnvart mannsæmandi vinnuumhverfi. Bæjarfélög þurfa að taka tillit til mismunandi vinnutíma, til dæmis með því að skoða hvort hægt sé að koma á móts við vaktavinnufólk með auknum sveigjanleika í þjónustu og meiri áherslu á lýðheilsu. Við sem samfélag þurfum að huga að því sem mestu máli skiptir; andlegri og líkamlegri heilsu okkar og barnanna okkar því án hennar er lífið lítils virði.
Jóhann Fr. Friðriksson, lýðheilsufræðingur