Heilsa og umhverfi
Fjölbrautaskóli Suðurnesja hefur verið Heilsueflandi framhaldsskóli frá haustönn 2011 en verkefnið byggist á forvörnum og stuðlar að vellíðan nemenda sem tileinka sér heilbrigðan lífsstíl. Heilsueflandi umhverfi bætir námsárangur og líðan nemenda og dregur úr brottfalli. Næring er mikilvæg og býður skólinn upp á fjölbreyttan og hollan mat í hádeginu. Hreyfing er hluti af skólanum og geta nemendur stundað bæði íþróttir og dans. Geðrækt er hluti af verkefninu og lögð er áhersla á að bæta líðan nemenda, fræðsla er um geðheilsu og aðgang að sálfræðing í skólanum.
Foreldrafélag FS býður öllum foreldrum barna í FS og einnig öllum foreldrum barna í 8.–10. bekk á fræðslu um heilsu og lífsstíl með Unu lækni fimmtudaginn 6. febrúar kl. 18 í fyrirlestrasal FS
Una Emilsdóttir er almennur læknir, menntuð í Kaupmannahafnarháskóla og er nú í sérnámi í almennum lyflækningum. Hún mun halda fyrirlestur um tengingu lífsstíls og þróun sjúkdóma fyrir foreldrafélag FS þann 6. febrúar og einnig er foreldrum nemenda af unglingastigi grunnskóla boðið að koma. Hún mun meðal annars fjalla um ónæmiskerfið og tengingu þess við krabbamein, fara yfir faldar hættur í nærumhverfi okkar, t.d í matvælum og snyrtivörum, og mikilvægi þarmaflórunnar verður rætt svo eitthvað sé nefnt. Hún segir að hver og einn geti tekið ábyrga afstöðu varðandi mataræði og nærumhverfi og langar að koma leiðbeiningum áleiðis til áhugasamra. Una hefur haldið fyrirlestra á Gló, Lifandi markaði, Heimsljósi og fjölda vinnustaða sem og Hörpunni ásamt fleiri fyrirlesurum á ráðstefnunni „Bara það besta“.
Anna Sigríður Jóhannesdóttir,
skólanefnd Fjölbrautaskóla Suðurnesja.