Karlakór Kef kertatónleikar
Karlakór Kef kertatónleikar

Aðsent

Heilsa íbúa og dýra verði ekki lögð undir í lýðheilsutilraun
Mánudagur 4. maí 2015 kl. 09:47

Heilsa íbúa og dýra verði ekki lögð undir í lýðheilsutilraun

Aðalfundur Náttúruverndarsamtaka Suðvesturlands 2015 tekur undir þær áhyggjur sem fram hafa komið hjá íbúum í Reykjanesbæ undanfarið vegna þeirrar miklu stóriðjuvæðingar sem stendur fyrir dyrum í Helguvík, örskammt frá íbúabyggð og helstu frístundasvæðum bæjarins.

Hesthúsahverfið á Mánagrund og beitarland lendir allt innan þynningarsvæðisins þar sem mengun má vera yfir viðmiðunarmörkum og telur NSVE það algjörlega ábyrgðarlaust af bæjaryfirvöldum í Reykjanesbæ ætli þau sér að heimila byggingu tveggja kísilmálmverksmiðja sem staðsettar eru aðeins 1km frá Mánagrund og 1,4km frá íbúabyggð.

Í nýlegu áliti Skipulagsstofnunar og fylgigögnum vegna kísilmálmverksmiðju Thorsil koma fram fjölmörg vafaatriði um loftdreifingu og mengun.


Meðal annars bendir Veðurstofan á að vindsvið líkankeyrslna hafi ekki verið sannreynt á nokkurn hátt, spár um dreifingu mengunarefna sé ekki byggðar á traustum gögnum og vinnslu dreifingarkortanna sé ábótavant.  Einnig er athyglisvert að lesa nýlegt svar skýrsluhöfundar í Víkurfréttum þar sem hann segir spurningu um afdráttarlausar upplýsingar um loftgæði í íbúabyggð Reykjanesbæjar „ekki hægt að svara af mikilli nákvæmni“. Í sérfræðiáliti sem Skipulagsstofnun styðst við í áliti sínu er síðan lagt til að spárnar verði sannreyndar með vöktun eftir að rekstur hefst, „með hliðsjón af reynslunni frá Grundartanga“.

Samkvæmt þessu er lagt til að bæjarbúar verði gerðir að þáttakendum í lýðheilsutilraun stóriðjunnar í Helguvík, sem er vitaskuld algjörlega óásættanlegt.  Með þessu væri einfaldlega verið að taka of mikla áhættu þar sem heilsa fólks og dýra væri lögð undir en verksmiðjunar fengju að njóta vafans.   Á það verður ekki fallist.
Að lokum skal bent á að réttur almennings til heilbrigðs umhverfis er varin í umhverfislöggjöfinni, einnig í alþjóðlegri umhverfisslöggjöf.  Jafnframt er kveðið á um þennan rétt í íslensku stjórnarskránni og mannréttindasáttmála Evrópu.

Stjórn NSVE.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024