Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Aðsent

Heilsa íbúa ætti að njóta vafans
Laugardagur 6. janúar 2018 kl. 06:00

Heilsa íbúa ætti að njóta vafans

Gleðilegt nýtt ár Suðurnesjamenn/konur og börn. Nú er nýtt ár að hefjast og maður sér oftar en ekki að fólk segist ætla að verða jákvæðara og ekki tala um neitt neikvætt á þessu ári. Jú það er sko margt hægt að tala um sem er jákvætt eins og íþróttafólkið okkar hér á Suðurnesjum og hvað það er að standa sig frábærlega í sinni íþróttagrein hérlendis og erlendis.
En ef fólk má ekki tala um það sem miður fer í okkar samfélagi þá yrði ekkert samtal og enginn skoðanaskipti. Fólk þarf ekki alltaf að vera sammála um alla hluti, bæði þá neikvæðu eins og þá jákvæðu heldur hlusta á skoðanir hvors annars og taka málefnalega þátt í þeirri umræðu án þess að níða náungann. Þetta samtal gæti komið með nýja sýn, aðra hlið eða bara frábæra útkomu þar sem að flestir geta sætta sig við.

En nú ætla ég að skrifa um það sem þessi pistill minn átti að fjalla um og já það er um okkar Helguvíkur mýtu United Silicon. Núna annan janúar er frétt í Morgunblaðinu um að það eigi að funda með áhugasömum kaupendum. Þar er sagt „mat sérfræðinganna sýnir að um 25 milljónir evra þurfi til að fyrirtækið verði eins og best verður á kosið. Fimm milljónir evra þarf til þess að koma til móts við kröfur Umhverfisstofnunar um úrbætur á verksmiðjunni og 20 milljónir evra til viðbótar svo verksmiðjan teljist fullkláruð“.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Ég spyr bara hvaða kaupendur/fjárfestar vilja kaupa gallaða/ónýta verksmiðju? Ef þessir fjárfestar/kaupendur færu til að mynda og gúggluðu United Silicon hvað fá þeir þá upp? Jú eina samfellda sorgarsögu mein gallaðra mengandi verksmiðju. Íbúar Reykjanesbæjar verða aldrei sáttir við þessa verksmiðju United Silicon sem er í c.a 1,6  kílómetra fjarlægð frá íbúabyggð með leikskólum og grunnskóla né aðra Silicon verksmiðju sem er í farvatninu og nefnist Thorsil. 

Heilsa íbúa, barna jafnt sem gamalmenna, asma jafnt sem öndunarfæra sjúklinga ætti að njóta vafans. Í google leitinni sæju fjárfestar/kaupendur allt peninga misferlið og allt það ranga ákvörðunar ferli sem hefur fylgt þessari verksmiðju frá upphafi. Svo ekki sé talað um það kæruferli sem nú er í gangi hjá Arion banka á hendur Magnúsi og svo kæru Magnúsar á aðra sem fjárfestu í þessu fíaskói á sínum tíma.
Ef ég væri fjárfestir með eitthvað vit á milli eyrnanna þá kæmi ég ekki einu sinni nálægt þessari verksmiðju með GÚMMÍHÖNSKUM.

Það er greinilegt að farið var út í þetta fíaskó ævintýri af vanþekkingu og litlu hugviti en selt í fallegum umbúðum (skipulagsskýrsla og starfsleyfisskýrsla).  Þar sem Skipulagsstofnun, Umhverfisstofnun og Reykjanesbær voru fífluð upp úr skónum. Ekkert stóðst það sem lagt var upp með en hinir sem kölluðu út í vindinn fyrir daufum eyrum að þessi verksmiðja væri eitt stórt klúður voru kallaðir rugludallar sem höfðu ekki bissnessvit, væru neikvæðir með niðurifs-orð-ræðu eða vildu bæjarfélaginu illt.

Af hverju er það þá svo erfitt fyrir þessar stofnanir að viðurkenna að það hafi verið spilað með þær af óhæfu fólki sem hreinlega vissi ekkert hvað það var að gera. Hvernig væri að taka báða hestaleppana frá augunum smá stund og viðurkenna mistök sín og heita þess að gera þau ekki aftur. Mikið væri það skynsamt áramóta heit fyrir framtíð Reykjanesbæjar. Við eigum frábæran bæ með margt spennandi í farvatninu, höldum þeirri framtíðarsýn til á lofti og gleymum þess vegna þessum mengandi stóriðju draumum sem hafa ekki veitt okkur þá lífsfyllingu eða gæfu sem við viljum sjá í okkar flotta bæjarfélagi.

Margrét S Þórólfsdóttir.