Heilræði til álversdraumórafólks
Ég er farinn að hallast að því að fleira fólk á Suðurnesjum ætti að fylgjast með vefritinu Smugunni (í bland við Víkurfréttir). Ég var að lesa þar tvær greinar sem eru bráhollar fyrir þá sem þjást af stóriðjuveirunni og gæti virkað sem ókeypis veirulyf eða jafnvel bólusetning. Óskandi að sem flestir læknist af þeirri veiru áður en meiri skaði hlýst af. Stundum er sprautað tvisvar til að tryggja öruggari varnir. Ég ráðlegg að það verði gert hér.
Fyrri sprautan inniheldur ferska grein Sigmundar Einarssonar jarðfræðings í Smugunni undir fyrirsögninni: Er HS-Orka í krísu í Krýsuvík? Sjá hér: http://www.smugan.is/pistlar/adsendar-greinar/nr/2503
Sigmundur er Keflvíkingur og einn af okkar reyndustu jarðfræðingum í rannsóknum á jarðhita og á Reykjanesskaganum. Hann skrifaði grein 1. okt sem hefur vakið athygli þar sem hann heldur því fram að til þess að fá næga orku fyrir 360.000 tonna álver í Hleguvík þurfi að klára alla nýtanlega orku á Reykjanesskaga og í neðri hluta Þjórsár og ekki víst að það dugi. Þá dregur hann stórlega í efa að hægt sé að vinna 480 MW af rafmagni úr jarðhitakerfinu sem kennt er við Krýsuvík, nær væri að ætla að þar fengjust í mesta lagi 160 MW. Sigmundur var gagnrýndur fyrir að leggja ekki fram gögnin sem hann byggði efasemdir sínar á. Hann færði rök fyrir því mati í máli og myndum á fundi með umhverfisráðherra í Reykjanesbæ 22. okt sl. en núna fyrst sé ég þessi rök hans á prenti.
Í lokin, eftir að hafa gert grein fyrir krísunni í Krýsuvík segir Sigmundur orðrétt:
"Bygging álversins mun vera hafin. Það ku bráðvanta háspennulínur. Og svo vantar fjármagn til hafnarframkvæmda. En orkuöflun virðist vera aukaatriði. Þar er fjármagn ekki eina vandamálið. Það vantar ekki bara orku. Það vantar orkulindir. Hvernig er þetta hægt? Hér hefur framkvæmdaröðin riðlast svo um munar. Er virkilega nóg að orkufyrirtæki segist ætla að útvega raforku? Nægir það til að öll tilskilin leyfi séu gefin út? Vinnubrögðin minna óþægilega mikið á aðra ævintýramennsku samtímans. Hér er í gangi farsi sem auðveldlega getur snúist upp í martröð ef ekki verður tekið í taumana. Og hver á þá að blessa Ísland?"
Til að þessi fyrri bólusetning virki að fullu þarf að lesa grein Sigmundar í heild.
Síðari sprautan gegn stóriðjuveirunni er greinin "Hinir ókosnu" eftir Sverri Jakobsson, sjá hér: http://www.smugan.is/pistlar/fastir-pennar/sverrir-jakobsson/nr/2456
Sverrir færir gild rök fyrir því að stóriðja er dýr laus á atvinnuleysi og gagnrýnir m.a. stjórnendur Samtaka atvinnulífsins og Alþýðusambandsins. Annars vegar stjórn Samtaka atvinnulífsins fyrir að vilja auka álögur á alla atvinnurekendur með hækkun tryggingargjalds til þess að knýja fram lægri álögur fyrir fámennan hóp þeirra sem reka orkufrekan iðnað. Hins vegar forystumenn Alþýðusambands Íslands fyrir að "...gefa í skyn með sinni forgangsröðun að stóriðja sé númer eitt, tvö og þrjú fyrir atvinnusköpun á Íslandi. Þeim misskilningi er raunar oft haldið á lofti að mikilvægi stóriðju fyrir atvinnusköpun hafi aukist vegna bágs atvinnuástands. En aukið atvinnuleysi á Íslandi veldur því þvert á móti að við þurfum að verja hverri krónu skynsamlega til að tryggja að erlend fjárfesting og nýting auðlinda skapi sem flest störf. Og þar fær stóriðjan ekki háa einkunn. Starfsmenn við álverin þrjú sem starfandi eru að viðbættum afleiddum störfum eru um 1,7% af vinnuafli í landinu. Störfin sem verða til í álverum eru hins vegar mjög dýr störf. Í álframleiðslu eru launin aðeins um 10% kostnaðar en 45% í sjávarútvegi, ef við tökum laun sjómanna, laun fiskverkafólks og allra þeirra með sem koma að verðmætasköpun í sjávarútveginum. Í ferðaþjónustu eru launin um 50% kostnaðar. Þetta merkir að stofnkostnaður við hvert starf í stóriðju einhver sá mesti sem þekkist, mældur í hundruðum milljóna króna. Því er aftur öfugt farið í ferðaþjónustu og öðrum mannaflsfrekari greinum. Ef ætlunin er að standa að öflugri atvinnusköpun mun hver króna sem varið er af opinberu fé skila mun meiru ef henni er varið til útgerðar eða ferðaþjónustu heldur en fjárfestingar í stóriðju. Og það er þrátt fyrir það að fórnarkostnaðurinn, þau umhverfisspjöll sem verða vegna framkvæmdanna, sé ekki metinn til fjár að neinu marki."
Að lokum vil ég óska öllu álversdraumórafólki góðs bata svo við getum öll einhent okkur á að byggja upp fjölhæft atvinnulíf og nýta bæði fjármagn og orku sem best til þess.
Þorvaldur Örn Árnason