Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Aðsent

Heilbrigður bær með hraustum samgöngum
Fimmtudagur 20. janúar 2011 kl. 09:41

Heilbrigður bær með hraustum samgöngum

Bærinn okkar hefur teygt mikið úr sér á undanförnum árum. Hér áður gátu börn og unglingar sótt tómstundir fótgangandi því nánast allt var í seilingarfjarlægð. En nú eru breyttir tímar. Við höfum notið ágætra almenningssamgangna en nú er skorið niður á því sviði, sem og öðrum. Æfingar og þjónusta almenningsvagna fara því miður mjög illa saman. Fólk vill nota strætó en getur það ekki því ferðir eru strjálar og strætó hættir að ganga löngu áður en æfingatímum lýkur.



Að mínu mati er erfitt fyrir börn og unglinga sem eiga heima utan miðju Reykjanesbæjar, t.d. í Innri- Njarðvík, Vallarsvæðinu, Höfnum og Heiðarhverfi, að finna sér íþrótt sem þeir geta stundað vandkvæðalaust. Þau komast á æfingar með strætó en ekki heim aftur því strætó hættir að ganga klukkan 18:50 virka daga og gengur ekki um helgar. Sumir foreldrar eiga ekki bíl og aðrir hafa ekki tíma til að skutla. Hvers eiga börn þeirra að gjalda? Eiga allir í Heiðarhverfi að æfa badminton, allir á Vallarsvæðinu að æfa Tækvondó eða dans og hvað eiga unglingar að gera í Innri-Njarðvík og í Höfnunum?

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024



Hver er hinn raunverulegi sparnaður bæjarins af þessum niðurskurði á almenningssamgöngum? Er ekki spurning um að forgangsraða hlutunum aðeins betur? Ég er sannfærður um að foreldrar væru tilbúnir að borga í strætó eftir klukkan 17:00. Er ekki spurning um að halda strætó gangandi í 1-2 tíma aukalega, a.m.k. á virkum dögum. Allir gætu þá æft það sem er í boði í bæjarfélaginu, unglingarnir haldast lengur í íþróttum, íbúum bæjarins finnst þeim ekki mismunað og bæjarfélagið byggist upp af ánægðari og heilbrigðari einstaklingum.


Guðmundur Stefán Gunnarsson,
íbúi í Innri-Njarðvík, kennari og júdóþjálfari.