Karlakór Kef kertatónleikar
Karlakór Kef kertatónleikar

Aðsent

Heilbrigðisþjónusta á Suðurnesjum – áskoranir og tækifæri
Föstudagur 28. desember 2018 kl. 11:56

Heilbrigðisþjónusta á Suðurnesjum – áskoranir og tækifæri

Sterk og örugg heilbrigðisþjónusta er mikilvæg fyrir samfélagið allt, vinnustaði, sveitarfélög og einstaklinga. Um langt árabil hefur útgjaldaaukning til heilbrigðismála runnið fyrst og fremst til einkaaðila og annarra sem veita þjónustu samkvæmt samningi við Sjúkratryggingar Íslands en opinber þjónusta setið á hakanum. Þessu hefur nú verið snúið við með eflingu heilsugæslunnar um land allt, fjármögnun geðheilbrigðisáætlunar og skóflustungu að nýjum Landspítala við Hringbraut en betur má ef duga skal.
 
Ítrekað hefur verið bent á mikilvægi þess að við horfum heildstætt á heilbrigðiskerfið okkar og ríkið sé meðvitað um það hvaða þjónustu verið er að kaupa, hver skuli vera gæði hennar og hvaða árangurs sé vænst.  Grundvöllur þess að svo megi vera er skýr heilbrigðisstefna þar sem heildarsýn liggur fyrir og horft er til lengri framtíðar en fjárlaga næsta árs.
 
Í drögum að heilbrigðisstefnu er fjallað um þrjú stig heilbrigðisþjónustu þar sem heilsugæslan er skilgreind sem fyrsta stigs þjónusta, Landspítalinn og Sjúkrahúsið á Akureyri sem þriðja stigs þjónusta. Annars stig þjónusta er er sú heilbrigðisþjónusta sem veitt er þar á milli.  Á því stigi er mikilvægt að þjónustan sé skilgreind, hver hún skuli vera og númer eitt hverjar séu þarfir íbúanna sjálfra, sjúklinganna, fyrir þjónustu. Til grundvallar liggur sú sýn að þjónustan sé veitt á réttum stað, að ekki sé um tvíverknað að ræða eða óhóflega bið eftir þjónustu. Það er löngu vitað að plástrar og skammtímalausnir duga ekki.
 
Allt heilbrigðiskerfið á Íslandi hefur búið við viðvarandi álag um langt árabil og þótt kerfið sé í meginatriðum að skila mjög góðum árangri þá er ljóst að við getum að svo mörgu leyti gert betur. Heilbrigðisstofnun Suðurnesja hefur ekki farið varhluta af þeim áskorunum sem heilbrigðiskerfið hefur staðið frammi fyrir. Að auki er um að ræða gríðarlega fjölgun íbúa og mikið álag vegna ferðamanna ekki síst vegna nálægðarinnar við alþjóðaflugvöllinn. Suðurnesin eru í mikilli nálægð við höfuðborgarsvæðið og njóta þess að hluta en hafa líka í vissum skilningi goldið þess. Nálægðin veldur því að það er styttra að sækja þjónustuna inn á höfuðborgarsvæðið en líka því að heilbrigðisstofnanir á svæðinu eru að hluta til í samkeppni við höfuðborgarsvæðið um starfsfólk til að manna þau störf í heilbrigðisþjónustu sem þar er að finna.
 
Frá því ég tók við í embætti heilbrigðisráðherra hefur fjöldi fólks frá Suðurnesjum komið að máli við mig; öldungaráðið, starfsfólk og stjórnendur heilbrigðisstofnunarinnar, sveitarstjórnarmenn, þingmenn, félagasamtök og íbúar. Auk þess sat ég opinn fund með íbúum þar sem þessi mál bar öll á góma. Áhyggjurnar af heilbrigðisþjónustunni sem fram hafa komið á þessum fundum eru margþættar og lúta að þeim áskorunum sem hér hafa verið nefndar auk annarra þátta. Nýs forstjóra bíða fjölmörg verkefni; áskoranir en ekki síður sóknarfæri í því að efla stofnunina sem lykilstofnun  á svæðinu. Mikilvægt er að í slíku uppbyggingarstarfi sé samstarf öflugt við alla þá aðila sem vilja veg stofnunarinnar sem mestan og bæta heilbrigðisþjónustu á Suðurnesjum.
 
Svandís Svavarsdóttir
heilbrigðisráðherra
Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024