Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Aðsent

Heilbrigðisstofnun Suðurnesja 55 ára í dag
Miðvikudagur 18. nóvember 2009 kl. 11:06

Heilbrigðisstofnun Suðurnesja 55 ára í dag

Í dag, 18. nóvember, eru 55 ár liðin frá því að fyrsti sjúklingur var lagður inn á Sjúkrahús Keflavíkur. Stofnunin hefur stækkað og þroskast að visku og vexti m.a. með sameiningu við Heilsugæsluna í Keflavík árið 1998 og heitir nú Heilbrigðisstofnun Suðurnesja (HSS). Saga HSS hefur ekki alltaf verið dans á rósum og má fullyrða að starfsfólk stofnunarinnar hefur þurft að berjast fyrir hverjum þeim áfanga sem náðst hefur með óþreytandi stuðningi velunnara sinna.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024


Batnandi ytri aðstæður
Nú er hins vegar ástæða til að gleðjast, húsnæðið hefur tekið stakkaskiptum, matsalur verið endurnýjaður og ýmislegt fleira verið lagfært. Langþráður draumur um að fá tölvusneiðmyndatæki sett upp, sem gefið var af miklu örlæti, er í augsýn. Það er hins vegar sú sú heilbrigðisþjónusta sem skjólstæðingar fá sem skiptir meginmáli. Aðaláhersla hefur verið á eflingu nærþjónustunnar, heilsugæsluna. Auk hennar hefur heimahjúkrunin verið í örri þróun og er nú í fararbroddi á landsvísu með útsjónarsamri og framsækinni þjónustu. Hjúkrunarþjónusta við aldraða er í Víðihlíð í Grindavík, en eflaust er leitun að jafn skilvirkri og hagkvæmri þjónustu og þar fer fram. Sjúkrahúsið á svo sannarlega þátt í góðum árangri stofnunarinnar, gjörbreyting hefur orðið á umfangi og í fjölbreytni þeirrar þjónustu sem veitt er. Sérstaklega má nefna auknar áherslur á sviði lyflækninga og endurhæfingar með fjölgun sérfræðinga og fjölbreyttari sérhæfingu hjúkrunarfræðinga. Ekki er þó hægt að neita því að framundan eru erfiðir tímar með einhverjum skipulagsbreytingum.


Samhengi árangurs og fjárveitinga
Afköst hafa aukist jafnt og þétt á s.l. árum og má spyrja sig hversu lengi slík þróun geti gengið við jafn erfiðar aðstæður og stofnunin hefur mátt búa við fjárhagslega að undanförnu. Fjárveitingar til stofnunarinnar hafa til langs tíma verið naumt skammtaðar miðað við fjölda íbúa á svæðinu og eru reyndar þær lægstu á landinu hvort sem litið er á stofnunina í heild eða einstaka þjónustuþætti hennar. Úthlutunarreglur þarfnast endurskoðunar en að sjálfsögðu er eingöngu farið fram á réttláta úthlutun fjárveitinga þannig að allir þegnar sitji við sama borð.


Mikilvægasta fjárfestingin
Gott húsnæði og réttlát fjárlög mega sín þó lítils ef ekki kæmi til frábært starfsfólk. Í því fjárhagslega ofviðri sem nú ríður yfir land og þjóð hafa sést blikur á lofti í heilbrigðismálunum. S.l. ár hefur starfsfólk HSS og um leið skjólstæðingar stofnunarinnar þurft að takast á við mikinn fjárhagslegan vanda um leið og allar leiðir til hagræðingar hafa verið skoðaðar. Starfsfólki til mikils hróss hefur tekist að mæta þeim kröfum ráðuneytisins. Nú bíður “annað ár í kreppu” handan við hornið og verður ekki auðveldara. Hversu miklar kröfur er hægt að gera til starfsfólks um vaxandi vinnuframlag um leið og laun eru lækkuð? Hinn almenni heilbrigðisstarfsmaður naut ekki velmegunarinnar nema að litlu leyti.


Framtíðarsýnin
Það er okkur lífsnauðsyn nú að framtíðarsýn í heilbrigðisþjónustu landsmanna sé skýr. Heilbrigðisráðuneytið er eflaust eitt erfiðasta ráðuneytið en það hefur reynt að beita sér fyrir því að marka nýja sýn á þessum viðsjárverðu tímum. Hin öru skipti pólitískra ráðamanna að undanförnu auðvelda ekki þá vinnu. Heilbrigðisþjónustan er eins og risastórt olíuskip sem breytir hægt um stefnu, eingöngu um örfáar gráður í einu. Ef sífellt er verið að skipta um stefnu, gerist ekki neitt. Stefna til lengri tíma er okkur nauðsynleg og hana þarf að vinna af og með því fólki sem best þekkir til mála. Ýmsar hugmyndir um verkaskiptingu sjúkrahúsanna hafa komið fram að undanförnu. Í kreppu verður að draga saman seglin með því að veita sérhæfðari þjónustu meira miðlægt og ekki síður að veita meira af almennari þjónustu í heimabyggð, þ.e. efla nærþjónustuna. Hugmyndir um skipulagsbreytingar verða að snúast um raunverulega hagræðingu en ekki eingöngu tilfærslu á fjármunum.


Heilbrigðisstofnun Suðurnesja
Hvernig er framtíðarsýn heilbrigðisþjónustunnar í einu stærsta sveitarfélagi landsins þar sem íbúafjöldaaukning hefur verið hvað örust? Því er haldið fram að góð þjónusta þurfi að vera skilvirk, markviss og réttlát. Hún þurfi að vera veitt af mannúð og miðuð við þarfir sjúklinga á réttum tíma.
• HSS vill vera í fararbroddi í heilsugæsluþjónustu og eflingu nærþjónustunnar.
• HSS vill veita endurhæfinga- og lyflækningaþjónustu sem mætir öllum almennum þörfum samfélagsins.
• HSS vill taka á móti fæðingum sinna íbúa án þess að taka áhættu.
• HSS vill nýta nýjar og góðar skurðstofur fyrir aðgerðir sem þarfnast lítillar yfirbyggingar og ekki þarf að gera á stórum háskólaspítala
• HSS er tilbúin að taka við nýjum verkefnum.
• HSS vill að lokum vinna með öllum þeim aðilum, félögum og stofnunum sem hafa heilbrigðisþjónustu að markmiði þar sem hagsmunir fara saman.


Á þennan hátt er lögum um heilbrigðisþjónustu mætt og á þennan hátt veitum við góða og hagkvæma þjónustu.