Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Aðsent

Heilbrigðismál eru sjálfsögð mannréttindi
Föstudagur 6. apríl 2018 kl. 10:45

Heilbrigðismál eru sjálfsögð mannréttindi

Við vinnslu fjárlaga fyrir árið 2018 sendi Samband sveitarfélaga á Suðurnesjum inn umsögn þar sem bent var réttilega á að Suðurnesin hafa verið fjársvelt af hinu opinbera. Þetta fjársvelti er óskiljanlegt þegar hafðar eru í huga þær staðreyndir, sem finna má í umsögninni, að hlutfallsleg fjölgun íbúa er mest á Suðurnesjum eða allt að 8% á ári sem er langt umfram landsmeðaltal. Ekkert bendir í þá átt að sú fjölgun verði minni á næstunni og ætti það að eitt að vera nóg til að viðeigandi ráðstafanir séu gerðar gagnvart íbúum svæðisins. Ef við skoðum hvaða áhrif þetta hefur haft á heilbrigðismál okkar bæjarbúa er nóg að skoða þær tölur sem við höfum m.a. um hjúkrunarrými fyrir íbúa Suðurnesja.

Í október síðastliðnum kynnti Velferðarráðuneytið nýja áætlun um fjölgun 155 hjúkrunarrýma. Athygli vekur að þrátt fyrir að hjúkrunarrými eru færri á hvern íbúa á Suðurnesjum en í öðrum heilbrigðisumdæmum er ekki gert ráð fyrir fjölgun rýma hér. Ef við berum saman fjölda rýma er heilbrigðisumdæmi Suðurnesja með 3,8 rými á hverja 1000 íbúa, heilbrigðisumdæmi Austurlands með 5,5 og heilbrigðisumdæmi höfuð- borgarsvæðisins með 6,6 rými. Þá er heilbrigðisumdæmi Norðurlands með 9,4 rými á hverja 1.000 íbúa, heilbrigðisumdæmi Vesturlands með 9,5 rými og heilbrigðisumdæmi Suðurlands með flest rými eða 12 á hverja 1.000 íbúa.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Skoðum líka fjárframlög til heilbrigðisstofnanna hvers svæðis fyrir sig.
Heilbrigðisstofnun Vestfjarða er úthlutað 387.000 kr á hvern íbúa, Heilbrigðisstofnun Austurlands 343.000, Heilbrigðisstofnun Vesturlands 255.000, Heilbrigðisstofnun Suðurlands 194.000 á hvern íbúa, Heilbrigðisstofnun Norðurlands 153.000 og að lokum er Heilbrigðisstofnun Suðurnesja úthlutað 117.000 kr á hvern íbúa.

Í málefnaskrá Pírata á Suðurnesjum er stefna okkar að koma heilbrigðismálum svæðisins í betra horf. Að hafa eðlilegt aðgengi að heilbrigðisþjónustu eru sjálfsögð mannréttindi, réttindi sem við búum ekki við núverandi ástandi. Nauðsynlegt er að aukinn þrýstingur sé settur á ríkið svo hægt sé að koma á breytingum fyrir íbúa Suðurnesja. Það þýðir að bæjarstjórn sem kosin er af okkur íbúunum taki upp gjallarhornið fyrir okkar hönd og láti heyra almennilega í sér og krefjist úrbóta. 

Guðmundur Arnar Guðmundsson
Sagnfræðingur