Heiðarbúar á Landsmóti skáta
Landsmót Skáta 2014 var haldið að Hömrum við Akureyri dagana 20. – 27. júlí sl. Það var merkileg reynsla fyrir mig sem hef þekkt skátastarf úr að heimsækja Landsmótið að Hömrum. Undraveröld gæti verið fyrsta orðið sem kemur upp í hugann þegar gengið er inn á glæsilegt Landsmótssvæðið. Baden Powell stofnandi skátahreyfingarinnar er trúlega upphafsmaður „leikjagarðanna“ sem milljónir manna sækja um allan heim nema hvað skátarnir sjálfir byggja sína eigin leiktæki sem eru til að þroska samstarfshæfileika þeirra og finna lausnir á vandamálum sem nýtist þeim í öllu þeirra lífi. Klifturnar úr spíru, brýr og koddaslagsgrind allt gert af börnunum sjálfum til að leika sér í og við og þroska huga og hönd.
Ég var satt best að segja undrandi á hvað svæðið var vel skipulagt, frábærlega fyrirkomið og áhugavert að sjá hvernig skátarnir höfðu byggt upp nytsöm tæki og tól til að þroska og efla getu þeirra. Kanóar, hjólabátar, tónlist skátaklútar og kurteisi allra var yfirbragð sem við öll kunnum að meta. Yfir 200 skátar frá fimm heimsálfum voru þarna samankomnir til að efla vináttu og traust á milli manna. Þrátt fyrir að skátahreyfingin á Íslandi sé orðin 102ja ára þá nýtur hún ekki þeirrar athygli og stuðnings sem hún ætti að njóta þegar litið er á mikilvægi hennar sem forvarnar- og þroskandi samstarfsvettvangs barna og unglinga á öllum aldursskeiðum. Skátarnir læra að komast af, sinna nytsömum hlutum, bera virðingu hvort fyrir öðru og vera virkir samfélagsþegnar og sjálfir telja þeir vináttuna vera mikilvægasta þáttinn í starfinu. Þakklætið er líka mikilvægur þáttur sem þeim er kenndur enda sagði leiðtoginn þeirra Baden Powell „Gjöfin er þín þegar þú hefur þakkað fyrir hana“ þessi orð eiga ekki síður við í dag en fyrir rúmum hundrað árum og ekki vanþörf á að minna alla á að þakklætið er ein mikilvægasta dyggðin.
Á ferð minni um svæðið hitti ég Heiðarbúa úr Reykjanesbæ á lokakvöldvöku Landsmótsins. Þar fór flottur hópur skáta og foreldra saman. Allir vor klæddir í sín fínu pansjó sem var þeirra einkennisklæðnaður. Þar var líf í tuskunum enda blómlegt skátastarf rekið í Reykjanesbæ. Ég er þakklátur fyrir boðið á Landsmótið sem gaf mér nýtt tækifæri til að sjá og átta mig á hvað skátastarf á Íslandi er vel gert, þroskandi, frábær forvörn og góð leið til að gera alla sem njóta að betri manni og konu. Ríki og sveitarfélög mega ekki gleyma mikilvægum þætti skáta þegar kemur að því að deila út fjármagni til íþrótta- og menningarmála. Ég tek undir mikilvægi vináttunnar og þakklætisins sem skátar tileinka sér í starfi sínu sem gerið það að verkum að einu sinni skáti verður alltaf skáti.
Ásmundur Friðriksson alþingismaður.