Aðsent

Hefur þú unnið í verslun eða við þjónustu?
Miðvikudagur 10. september 2014 kl. 07:00

Hefur þú unnið í verslun eða við þjónustu?

Jónína Magnúsdóttir náms- og starfsráðgjafi skrifar

Ef svo er þá er raunfærnimat í Verslunarfagnámi tækifæri fyrir þig lesandi góður.

Miðstöð símenntunar á Suðurnesjum býður upp á raunfærnimat í Verslunarfagnámi sem er rúmlega 50 eininga starfstengt nám á framhaldsskólastigi. Tilgangur raunfærnimats er að staðfesta þekkingu og reynslu sem einstaklingur býr yfir á ákveðnu sviði. Þessa staðfestingu er síðan hægt að nota til að stytta nám, sýna fram á reynslu og færni í starfi eða þegar gerð er atvinnuumsókn. Einnig að leggja mat á hvernig einstaklingur getur styrkt sig í námi eða starfi. Til að komast í raunfærnimatið þarf viðkomandi að vera orðinn 23 ára og hafa unnið við verslun eða þjónustu í 3 ár eða lengur.

Bílakjarninn sumardekk 2024
Bílakjarninn sumardekk 2024

Ef þú vilt bæta við menntun þína eða styrkja stöðu þína á vinnumarkaði er raunfærnimat klárlega góð leið til þess. Þetta er tækifæri til að fá metið það sem þú kannt nú þegar! Yfir 70 einstaklingar hafa farið í gegnum raunfærnimat í hinum ýmsu greinum á vegum MSS. Margir þessara einstaklinga hafa látið draum sinn um formlegt nám sem viðurkennt er á vinnumarkaði verða að veruleika. Þá hefur raunfærnimat án undantekninga aukið sjálfstraust þátttakenda.
Rétt er að geta þess að raunfærnimat er ókeypis og því hafa þátttakendur engu að tapa en allt að vinna.

Hér fyrir neðan eru ummæli þátttakenda sem hafa farið í gegnum raunfærnimat.
„Ég var hissa á hversu auðvelt þetta reyndist. Gefur mér meira sjálfstraust í starfi þar sem ég hef fengið kunnáttu mína metna.”
„Það var virkilega gaman að vinna lokaverkefnið.”
„Raunfærnimatið hefur opnað hug minn um að byrja í námi.”
„Frábært mat og sjálfstraustið hefur aukist til mikilla muna. Takk fyrir mig.”
„Frábært að fara í svona raunfærnimat, gaf mér aukið sjálfstraust og ýtti undir að íhuga nám.”

Allar nánari upplýsingar veitir:

Jónína Magnúsdóttir
Náms- og starfsráðgjafi
Miðstöð símenntunar
4125958/6617106- [email protected]