Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Aðsent

Mánudagur 23. janúar 2006 kl. 21:02

Háskólamenntun og undansláttur ráðherra

Svör menntamálaráðherra við fyrirspurn minni um framlög til fjarkennslu í háskólanámi í gegnum Fræðslunet Suðurlands og Símenntunarstöð Suðurnesja voru mikil vonbrigði. Þar uppplýsti hún að ekki kæmi til af sinni hálfu nein þátttaka í kostnaði stöðvanna við háskólamenntun um fjarnám. þrátt fyrir skýra ábyrgð ríkisvaldsins.

Kostnaður við háskólanámsþátt stöðvanna er áætlaður á bilinu 10-12 milljónir á ári en nú greiðir ríkið ekkert til þess um leið og verulegum fjármunum er varið til háskólanáms fyrir vestan og norðaustan. Landshlutum er mismunað og þrátt fyrir óveruleg útgjöld ætlar menntamálaráðherra ekki að mæta kostnaði við námið og vanda stöðvanna. Um er að ræða afar lítið fé á mælikvarða útgjalda til menntunarmála en himinháar fjárhæðir fyrir fjársvelt fræðslunet. Þarna er verið að bregða fæti fyrir aðgang landsbyggðar að menntun og nýjum tækifærum.


Ábyrgðin er ríkisvaldsins

Í umræðunum á Alþingi viðurkenndi ráðherra menntamála ábyrgð ríkisvaldsins á háskólanámi og að hins opinbera væri að bera af því kostnað en ekki sveitarfélaganna. Hún sagði hinsvegar að vegna nálægðar við Reykjavík væri mismunur á framlögum eftir svæðum réttlætanlegur, en Austuland og Vestfirðir fá mun hærri framlög, og að Fræðslunetin og Símenntunarstöðvarnar þyrftu að sækja framlög og fjármuni beint til háskólanna sem fjarnámið er miðlað frá, til að fá greitt fyrir þjónustu sína. Ekki komi til aukin framlög frá ríkinu. Þetta er fráleitt. Háskólarnir fá ekki greitt séstaklega fyrir þetta og eru stofnanir í fjárhagslegum erfiðleikum sem þurfa að beita fjöldatakmörkunum til að standa undir starfsemi sinni.

Háskólanám við þessar stofnanir er því í uppnámi og undir sveitarfélögum og fyrirtækjum komið hvert framhaldið verður. Þetta er afleit staða en uppgangur háskólanáms um fjarnám hefur verið mikill og má líkja aðgangi að því við byltingu fyrir byggðirnar.

Að mínu mati er þetta alvarlegt högg fyrir háskólamenntun á landsbyggðinni. Ekki þarf að taka fram að hlutfall háskólamenntaðra er mun lægra á lansbyggð en á höfuðborgarsvæðinu, þess þá heldur þarf að fjárfesta í háskólamenntun utan höfuðborgarsvæðis.

Þörfin er til staðar og hún er mikil. Leggist háskólanám af á þessum landsvæðum sem þarna gjalda nálægðar við suðvesturhornið eða dragi verulega úr því, kemur það í veg fyrir að fjöldi fólks sæki sér aukna menntun og ný tækifæri. Sérstaklega þar sem fjarnám hentar afar vel fólki sem ekki á þess kost að skipta um búsetu og flytja, tímabundið eða alveg, á höfuðborgarsvæðið.

Um er að ræða nokkra tugi milljóna. Smámuni fyrir ríkisvaldið. Stórfé fyrir fræðslunetin. Afstaða menntamálaráðherra kemur á óvart og veldur miklum vonbrigðum. Vonandi endurskoðar hún afstöðu sína.

Það er mikil aðsókn í fjarnám á háskólastigi í gegnum fræðslumiðstöðvarnar sem í grunninn hafa það hlutverk að bjóða upp á fullorðinsfræðslu og endur- og símenntun. Háskólanámið er hinsvegar merkur og mikilvægur þáttur í starfsemi þeirra sem þarf að efla og styrkja.

Eins og fram kemur í samningi um símenntunarstöðvar eru framlög ríkisins fyrst og fremst til þess að standa undir grunnstarfsemi stöðvanna. Fjárveitingu til stöðvanna upp á 9–10 milljónir á ári skilgreint sem grunnframlög og til grunnverkefna og tekur ekki til fjarnámsins á háskólastigi og þeirrar þjónustu sem símenntunarstöðvarnar veita í því samhengi. Staðreyndirnar tala sínu máli og metnaðar- og skilningsleysi menntamálaráðherra dapurlegt í besta falli.

Björgvin G. Sigurðsson, þingmaður Samfylkingarinnar.
Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024