Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Aðsent

Háskólahátíð á Suðurnesjum
Föstudagur 18. júní 2004 kl. 13:56

Háskólahátíð á Suðurnesjum

Þann 17. júní s.l. urðu straumhvörf í lífi Suðuresjamanna.  Ekki aðeins fögnuðum við 100 ára afmæli heimastjónrar og 60 ára sjálfstæði þjóðarinnar heldur voru einnig brautskráðir í fyrsta sinn háskólakandídatar á Suðurnesjum.  Sá atburður markar tímamót á svæðinu.  Vert er að óska nemendunum 17 innilega til hamingju með hinn glæsta árangur.  Hann er uppskera síðustu fjögurra ára í hörku vinnu við nám.  Ekki er víst að allir geri sér grein fyrir hversu mikið nemendurnir hafa lagt á sig til að ná hinum eftiursótta áfanga.  Þá hefur mætt mikið á fjölskyldum þeirra og vinnufélögum.  Án samstarfs, velvilja og sjálfsaga væri þetta ekki hægt.

Velvilji Hákskólans á Akureyri.
Námið hefur einkum farið fram hér suðurfrá sem fjarnám hjá Miðstöð símenntunar á Suðurnesjum en kennslan verið undir stjórn kennara við Háskólann á Akureyri.  Vert er að þakka rektor, Þorsteini Gunnarssyni, fyrir velvildina í ferlinu öllu.  Í apríl 1999 fórum við Friðjón Einarsson norður til að leita eftir samstarfi HA um háskólakennslu á Suðurnesjum.  Tók rektor erindinu svo vel að hann ritaði undir viljayfirlýsingu um taka upp kennslu á öllum námsbrautum skólans.  MSS gekk svo frá formlegum samningi og hefur annast utanumhald allt hér suðurfrá með einstökum sóma.  Rektor sýndi svo hug sinn í verki með því að koma hingað til brautskráningar nemendanna af Suðurnesjum.  Þetta var sannarlega háskólahátíð á Suðurnesjum.

FS fyrir 30 árum – nú háskóli.
Líkja má þessum atburði við stofnun Fjölbrautaskólans fyrir tæpum 30 árum.  Ég hygg að fáir atburðir hafi haft jafn mikil áhrif á samfélagið allt á Suðurnesjum enda skipta nemendur frá FS orðið þúsundum.  Háskólavæðing Suðurnesja markar sömu tímamót.  Þau eru rökrétt framhald af þróun byggðar á Suðurnesjum.  Af námi spretta nýjungar og framfarir.  Háskólanámið mun skila samfélaginu miklum verðmætum í formi mannauðs þeirra einstaklinga sem skila sér inn í atvinnulífið.  Þannig munu flest þeirra er nú luku námi hverfa til starfa hér á Suðurnesju, m.a. hjúkrunarfræðingarnir sem ráðnir hafa verið á HSS.

Næstu skref.
Á liðnum vetri voru hátt í 70 nemendur við fjarnám á háskólastigi hjá MSS.  Nú er að halda áfram og byggja á þeim kjarna sem þegar er til staðar.  Háskóli Íslands, Tækniháskólinn og Kennaraháskólinn eru einnig opnir fyrir fjarnámi.  Við þurfum að efla samstarfið við alla þessa skóla þannig að háskólavæðing á Suðurnesjum verði jafn traustur þáttur í lífi okkar og FS. Við eigum líka að stefna að opnun formlegs háskóla hér suðurfrá – íþróttaakademíu, Tækniháskólann eða annað form háskólanáms og rannsókna. Það styrkir samfélagið innan frá og eflir samkeppnisstöðu þess.  Þess vegna er ástæða til að óska Suðurnesjamönnum öllum til hamingju með tímamótin – og ekki síst fyrstu fyrstu nemendum sem útskrifaðir eru úr háskóla heimafyrir.  Þessi tímamót náðust vegna almenns vilja allra hlutaðeigandi um að koma háskólanámi heim í hérað.

Hjálmar Árnason,
alþingismaður.
Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024