Harma ákvörðun um staðsetningu fangelsis
Bæjarstjórar sveitarfélaganna á Suðurnesjum harma ákvörðun innanríkisráðherra um staðsetningu nýs fangelsis á Hólmsheiði. Í tæpt ár hafa sveitarfélög á Suðurnesjum og fleiri sveitar félög unnið útfrá yfirlýsingum Innanríkisráðuneytisins um að framkvæmdin yrði boðin út óháð staðsetningu og að horft yrði til heildaráhrifa þeirra kosta sem fram kæmu í þeim tilboðum sem bærust í verkið. Nú hefur verið söðlað um og ákvörðun tekin um að fangelsið verði byggt á Hólmsheiði.
Þær forsendur sem gefnar eru fyrir þeirri ákvörðun byggja á veikum grunni. Kostnaðarútreikningar sem vísað er til eru ófullkomnir og taka ekki tillit til þátta eins og frádráttar kostnaðar Lögreglunnar á Suðurnesjum vegna staðsetningarinnar á Hólmsheiði eða vaxandi fjölda mála sem upp koma í Flugstöð Leifs Eiríkssonar með auknu flugi til landsins. Né heldur taka þeir tillit til þess að lóðin sem stendur til boða á Suðurnesjum er tilbúin til framkvæmda með lögnum og vegakerfi á meðan lóð á Hólmsheiði krefst aukinna framkvæmda.
Þess utan ætti stjórnvöldum að vera full ljóst að aðstæður á Suðurnesjum eru með þeim hætti að framkvæmd sem nemur 2 milljörðum króna getur skipt fjölda fjölskyldna á svæðinu sköpum. Sá kostnaður sem yfirvöld telja sparast með staðsetningu á Hólmsheiði er í besta falli óverulegur. Neikvæð áhrif mikils atvinnuleysis og kostnaður því fylgjandi heldur áfram að safnast upp hjá Vinnumálastofnun og félagsþjónustu bæjarfélaganna á Suðurnesjum.
Sveitarfélögum sem hafa í góðri trú lagt fjármuni og tíma í undirbúning að útboðsverkefni sem ljóst virðist að aldrei átti að bjóða út er sýnd lítilsvirðing með þessari ákvörðun.
Ásmundur Friðriksson bæjarstóri í Sveitarfélaginu Garði
Róbert Ragnarsson bæjarstjóri í Grindavík
Árni Sigfússon bæjarstjóri í Reykjanesbæ
Sigrún Árnadóttir bæjarstóri í Sandgerðisbæ
Eirný Vals bæjarstjóri í Sveitarfélaginu Vogum