Bláa Lónið - 01apíl.
Bláa Lónið - 01apíl.

Aðsent

Harðduglegt fagfólk sem leggur sig fram
Föstudagur 5. desember 2014 kl. 13:47

Harðduglegt fagfólk sem leggur sig fram

– Kjartan Már Kjartansson bæjarstjóri skrifar.

Eins og margir vita eru bæjaryfirvöld að grípa til aðhaldsaðgerða á mörgum sviðum í rekstri Reykjanesbæjar. Einn liður í þessum aðgerðum snýr að lækkun kostnaðar vegna yfirvinnu og aksturs. Það þýðir ekki að starfsmenn Reykjanesbæjar hafi upp til hópa verið að fá greitt fyrir yfirvinnu sem ekki var unnin eða akstur sem ekki var ekinn, þó eflaust megi finna einstök dæmi um slíkt. Þvert á móti. Starfsmenn hafa heilt yfir verið viljugir til að vinna mikið og leggja hart að sér við að þjónusta íbúa Reykjanesbæjar þegar á hefur þurft að halda og ekki talið það eftir sér að vinna yfirvinnu eða aka eigin bílum í þágu starfseminnar.

Akstursdagbók og skráning
Aðgerðirnar snúa að fyrst og fremst að framkvæmd greiðslna fyrir ofangreinda liði. Í stað þess að greiða fyrir yfirvinnu og/eða akstur í formi fastra mánaðarlegra greiðslna verður framvegis greitt fyrir akstur skv. akstursdagbók og fyrir unna yfirvinnu. Þótt líklega verði reynt að halda slíkum liðum í lágmarki verður brugðist við þannig að ef starfsemin eða verkefnin kalla á yfirvinnu eða akstur verður það að sjálfsögðu heimilað. Um leið gefst tækifæri til að safna upplýsingum um raunverulega þörf fyrir akstur og yfirvinnu í stað þess að hafa þetta sem fasta launaliði.

Ómakleg umræða
Í umræðum á meðal bæjarbúa út í samfélaginu að undanförnu hafa ákveðnir hópar starfsmanna Reykjanesbæjar, aðallega þeir sem vinna á sviðum sem hafa aðsetur í Ráðhúsi Reykjanesbæjar, skynjað ómaklega umræðu og tilsvör um að þeir séu of hátt launaðir og skili ekki fullu vinnuframlagi. Það er ekki rétt. Það sem hins vegar hefur líklega gerst er að á tímum þar sem vel menntað fólk gat valið á milli fjölda vellaunaðra starfa, og erfitt reyndist að manna tilteknar stöður, var fagfólk laðað til starfa hjá Reykjanesbæ með vilyrðum um að geta hækkað launin með talsverðri aukavinnu. Nú er staðan einfaldlega þannig að sveitarfélagið hefur ekki bolmagn til að standa undir slíkum auka- eða yfirvinnugreiðslum lengur. Hvorki peningalega né lagalega því gæta verður jafnræðis á milli einstaklinga og óheimilt í opinberum rekstri að gera betur við einn frekar en annan. Fólk með sömu menntun og sömu reynslu á að fá sömu laun fyrir sömu störf. Það er sú breyting sem unnið er að. Um leið verður reynt að passa uppá að Reykjanesbær sé samkeppnishæfur við önnur sveitarfélög þegar kemur að ráðningarkjörum.

Góð þjónusta áfram mikilvæg
Ég fullyrði enn og aftur að starfsmenn Reykjanesbæjar hafa hingað til, og mun einnig hér eftir, leggja sig alla fram við að veita bæjarbúum góða þjónustu. Hvort þeim finnist svo launin vera sanngjörn verður tíminn að leiða í ljós. En launin eru ekki allt. Ánægja „viðskiptavina“ með þjónustuna (lesist bæjarbúar) skiptir starfsfólk Reykjanesbæjar einnig miklu máli.

Kær kveðja
Kjartan Már Kjartansson, bæjarstjóri.

 

Public deli
Public deli