Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Aðsent

Fimmtudagur 15. apríl 2004 kl. 14:59

Harðar umræður í bæjarstjórn Sandgerðisbæjar

Hart var tekist á á fundi bæjarstjórnar Sandgerðis í gær vegna uppsagnar Ólafs Þórs Ólafssonar íþrótta- og tómstundafulltrúa bæjarins og fulltrúa Sandgerðislistans í bæjarstjórn. Á fundinum var lagður fram undirskriftalisti um 200 íbúa Sandgerðisbæjar þar sem þess var krafist að bæjarstjórn bæði Ólaf Þór afsökunar á bókun meirihluta bæjarstjórnar sem sett var fram á síðasta fundi hennar. Einnig var þess óskað í texta undirskriftalistanna að Ólafur Þór drægi uppsögn sína til baka. Meirihluti bæjarstjórnar sá ekki ástæðu til að biðjast afsökunar á bókunum sínum sem gerðar voru á síðasta fundi bæjarstjórnar og var uppsögn Ólafs Þórs tekin gild.

Á fundinum hörmuðu bæjarfulltrúar Framsóknarflokksins málsmeðferð meirihlutans  og að mál Ólafs Þórs væru komin í þann farveg sem raun bæri vitni.

Saka minnihluta um að koma pólitísku höggi á meirihluta
Í bókun meirihluta bæjarstjórnar um málið sem lögð var fram í gær segir að það sé nöturleg staðreynd að minnihluti bæjarstjórnar hafi valið að snúa út úr og rangtúlka hluta af bókun meirihlutans þar sem það virðist gert í þeim eina tilgangi að koma pólitísku höggi á meirihluta bæjarstjórnar. Í bókuninni segir ennfremur: „Um leið er reynt að fela klaufalega afgreiðslu minnihlutans á málefnum bæjarfélagsins og má meðal annars benda á 1. mál á fundi bæjarstjórnar frá 10.mars 2004.
Þar að auki er gerð tilraun til að vekja upp úlfúð hjá starfsfólki bæjarfélagsins en ekki verður séð að það sé bæjarfélaginu til góðs. Vegna þessa telur meirihluti bæjarstjórnar rétt að ítreka þá skoðun meirihlutans að hjá Sandgerðisbæ starfi traust og gott starfsfólk. Um það ber gott þjónustustig í öllum deildum bæjarfélagsins vitni.

Þessi vinnubrögð, framkoma og skrif  minnihlutans eru að mati meirihlutans óskiljanleg með öllu og málefnum bæjarfélagsins ekki til framdráttar en minnihlutinn hefur valið þessa leið þegar rökin þrýtur.

Væntanlega er þetta þeirra ,,aðferðarfræði” til að byggja upp og efla Sandgerðisbæ til framtíðar litið. Um aðferðir þeirra og væntingar eru bæjarbúar þegar búnir að dæma. Núverandi meirihluti bæjarstjórnar er tilbúinn að taka á móti  dómi kjósenda við verklok í næstu kosningum,“ segir í bókun meirihlutans.

Harmar vinnubrögð meirihlutans
Minnihluti bæjarstjórnar harmar í bókun sem lögð var fram á fundinum í gær að meirihluti bæjarstjórnar Sandgerðisbæjar hafi tekið upp þau vinnubrögð að vera með ómálefnalegar og persónulegar aðdróttanir gagnvart einstaka bæjarfulltrúum með bókun á síðasta fundi bæjarstjórnar. Í bókun minnihlutans segir orðrétt: „Í stjórnmálum á að taka rökstudda afstöðu til mála, líkt og minnihlutinn gerði á umræddum fundi bæjarstjórnar.  Það er einlæg ósk bæjarfulltrúa B og Þ lista að meirihlutinn láti af slíkum vinnubrögðum og haldi sig við málefnin, bæjarstjórn og Sandgerðingum öllum til heilla.

Skoðanir bæjarfulltrúa B og Þ lista á sölu og endurleigu fasteigna Sandgerðisbæjar eru kunnar og vel rökstuddar líkt og sjá má í fundargerð 208. fundar bæjarstjórnar.  Líkt má segja um afstöðu meirihlutans, en þó vekur furðu að meirihlutinn virðist forðast að kynna málið fyrir bæjarbúum.  Í þessu sambandi má benda á að meirihlutinn felldi á 355. fundi bæjarráðs tillögu um almennan kynningarfund um sölu og endurleigu fasteigna.  Þess vegna hafa B og Þ listi ákveðið að standa sameiginlega að opnum kynningarfundi um málið og mun hann fara fram á næstu dögum.  Skorað er á fulltrúa D og K lista að taka þátt í fundinum þannig að öll sjónarmið komi fram.  Þá er einnig óskað eftir þátttöku bæjarstjóra,“ segir í bókun minnihluta bæjarstjórnar Sandgerðisbæjar.
Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024