Hannesar þessa lands
Ég hef ekki lagt í vana minn að svara greinum fólks sem ekkert hefur fram að færa annað en ólyndi og önugheit. Reglulega birtast slíkar greinar eftir Hannes nokkurn Friðriksson hér á VF og eru þær sjaldnast svaraverðar.
Eftir grein hans í gær velti ég þó fyrir mér hver sé tilgangur með þessum endalausu greinaskrifum Hannesar. Hvernig stendur á því að einstaklingur sem vill taka þátt í bæjarmálum, maður sem situr meðal annars í nokkrum nefndum hjá Reykjanesbæ og hefur sýnt vilja til þess að sitja í æðstu stjórn bæjarins, leggur sig sérstaklega fram við að tala allt niður sem tengist Reykjanesbæ. Af greinum Hannesar að dæma er ekkert sem er í lagi, ekkert jákvætt. Að rýna til gagns getur verið jákvætt og mikilvægt þeim sem sitja í stjórn sveitarfélags en niðurrif og neikvæðni skilar sjaldnast árangri.
Maður að nafni Hannes Friðriksson tók eitt sinn þátt í störfum Sjálfstæðisflokksins í skamman tíma og sýndi vilja til þess að ná þar frama. Hann fékk lítinn stuðning og daufar undirtektir og fór í fússi. Nú er maður með sama nafni í Samfylkingunni og bauð hann sig fram í síðasta prófkjöri flokksins en fékk afgerandi höfnun. Vinnulag og baráttuaðferðir þessara tveggja voru þær sömu.
Mín skoðun er sú að vinnubrögðin, framkoman og viðhorfið geti haft þau áhrif að menn ná ekki árangri og leiði til þess að enginn vill vinna með viðkomandi.
Böðvar Jónsson
Bæjarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins