Hannes sækist eftir 3. sæti Samfylkingar
Ég undirritaður, Hannes Friðriksson, tilkynni hér með að ég hef ákveðið að gefa kost á mér í 3. sæti í prófkjöri Samfylkingarinnar vegna Alþingiskosninganna í Suðurkjördæmi.
Það geri ég vegna þess að ég hef áhuga og vilja til að taka virkan þátt í því að móta samfélag okkar um leið og ég tel að fjölbreytt reynsla mín nýtist til góðra verka á Alþingi.
Ég hef á undanförnum árum tekið virkan þátt í bæjarmálapólitík í Reykjanesbæ á víðum grunni. Þar hef ég verið í senn gagnrýninn á fjárhagstjórn bæjarins og tekið þátt í baráttu og umræðu um veigamikil mál er snerta samfélag okkar hér á Suðurnesjum. Hæst ber þar að nefna málefni Hitaveitu Suðurnesja, Eignarhaldsfélagsins Fasteignar og hjúkrunarheimilis við Nesvelli. Jafnframt þessu hef ég tekið þátt í starfi Umbótanefndar Samfylkingar og Velferðarnefndar Samfylkingar þar sem ég hef tekið þátt í stefnumótun flokksins í velferðarmálum. Ég er í stjórn Fasteigna Reykjanesbæjar ásamt því að eiga sæti í Fjölskyldu- og félagsmálaráði Reykjanesbæjar þar sem ég hef fengið innsýn og þekkingu á þeim málaflokkum er undir það falla.
Reykjanesbæ 1. október 2012
Hannes Friðriksson