Hamingja til framtíðar
Það er óhætt að segja að þessar síðustu vikur hafa verið lærdómsríkar fyrir mig sem er að sækja um vinnu hjá íbúum Suðurkjördæmis. Að bjóða sig fram til Alþingis og sækja umboð sitt til kjósenda er meira en að segja það svo mikið er víst. Ekki síst er það erfitt ef flokkurinn sem maður býður sig fram fyrir er nýr og fjármunir til auglýsinga og ferðalaga eru af skornum skammti. Við frambjóðendurnir höfum samt reynt okkar besta til þess að koma okkar sjónarmiðum og áherslum á framfæri með greinaskrifum í staðarblöðin og á vefsíður, eins höfum við heimsótt fólk og staði, tekið þátt í framboðsfundum hér og þar og mætt í útvarpsþætti og sjónvarp. Það er von okkar að fólk hafi þannig getað áttað sig á því hver við erum og fyrir hvað við í Bjartri framtíð stöndum. Öll gerum við okkur grein fyrir þeim mikla vanda sem steðjar að í íslensku samfélagi og það hefur ekki farið fram hjá neinum að þar ber skuldavanda heimila hæst. Hann er mikill og á honum verður að taka með einum eða öðrum hætti. Greina ber vandann og ráðast síðan af fullum krafti í að hjálpa þeim sem verst standa. Atvinnumál, samgöngumál, menntamál, gjaldmiðilsmál og síðan grunnþjónustan öll eru allt málefni sem taka verður á af festu og ákveðni og leysa til framtíðar.
Byggjum upp
Björt framtíð vill byggja upp og tryggja sanngjarnt, frjálst og opið samfélag, þar sem leitast er við að halda á lofti grunngildum íslenskrar hefðar, frelsi, jafnrétti, trausti, virðingu, og heiðarleika. Samfélag þar sem enginn þarf að þjást af mismunun, fátækt, atvinnuleysi eða skorti á menntun. Samfélag sem tryggir okkur meiri fjölbreytni, minni sóun, meiri stöðugleika, samfélag sem er laust við efnahagslegar kollsteypur. Samfélag þar sem ríkir minna vesen og fólk er laust við óþarfa áhyggjur og getur treyst því að hlutir virki fljótt og vel. Björt framtíð leggur ríka áherslu á meiri sátt í íslensku samfélagi því hér á landi er hver sáttahöndin upp á móti annarri og í sundrung gerist ekki neitt. Björt framtíð vill breyta stjórnmálunum. Vinna að friði. Vil viljum tala af virðingu og sanngirni um hvert annað. Þannig eflum við traust. Björt framtíð trúir því að sameinuð leysum við öll þau vandamál sem að íslensku þjóðfélagi steðja. Við í Bjartri framtíð viljum í raun hefja hér nýtt landnám þar sem við öll í sameiningu sköpum hamingjuríkt samfélag fyrir okkur og komandi kynslóðir. Hamingjuríkt og áhyggjulaust líf er það sem við öll þráum fyrir okkur sjálf og alla aðra. Hamingjan er spunnin úr aðstæðum sérhvers manns og kjarki hans til þess að taka ákvarðanir um líf sitt. Hamingjan fæst með því að öðlast þekkingu á möguleikum og næmi á þá, setja sér höndlanleg markmið og ná árangri.
Góðir íbúar Suðurnesja, næsta laugardag göngum við til kosninga og veljum okkur leiðir til framtíðar. Slíðrum sverðin, snúum bökum saman og tryggjum okkur sjálfum, börnum okkar, barnabörnum og öllum þeim ófæddu einstaklingum sem eiga eftir að fæðast í þessu stórkostlega landi okkar, bjarta framtíð. Kjósið X-A.
Páll Valur Björnsson
1. sæti á lista Bjartrar framtíðar í Suðurkjördæmi