Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Aðsent

Hálshnykkingar skapa áhættu
Mánudagur 27. nóvember 2006 kl. 20:54

Hálshnykkingar skapa áhættu

Nýjar rannsóknir kynda nú undir gamlar grunsemdir um að svokölluð hnykkingar-meðferð á hálshryggjarliðum geti leitt til heilablóðfalls. 
Í kjölfarið hafa efasemdir vaknað um heim allan um að hálshnykkingar geti falið í sér vissa áhættu, ekkert síður en skurðaðgerðir.
Það eru fyrst og fremst nýlegar rannsóknir vísindamanna við Kaliforníu-háskóla í San Francisco sem vakið hafa athygli á þessu. 
Læknar rannsökuðu 55 sjúklinga, sem látist höfðu af völdum heilablóðfalls vegna skaddaðrar hálsslagsæðar og sannreyndu að níu þeirra höfðu farið í háls-hnykkingarmeðferð undangenginn mánuð. Það er fimm sinnum hærri tíðni en tölfræðilega hefði mátt búast við.
Þrúgaðir af þessum staðreyndum hafa margir kírópraktorar farið að líta í eigin barm af meiri gagnrýni en áður og margir hafa jafnvel viðurkennt að þótt meðferðin sé framkvæmd á réttan hátt, sé sannarlega ákveðin áhætta til staðar.
Kírópraktorar beita fyrst og fremst tveimur aðferðum í meðferð sinni. 
Annars vegar er um að ræða liðkun og hins vegar liðlosun með hnykkingu. Með liðkun hreyfir kírópraktorinn liðinn varlega með markvissum hreyfingum að endimörkum mögulegrar hreyfigetu. Hann hreyfir hann þó ekki lengra en eðlileg hreyfimörk liðsins leyfa, sem um leið eru sársaukaþolmörk viðkomandi sjúklings. Liðlosun felur það í sér að færa liðinn yfir hindrunina með snöggum, markvissum rykk. En afleiðingarnar geta orðið örlagaríkar því grunur leikur á að liðlosun á hálsliðum geti valdið heilablóðfalli. Gagnrýnendur þessarar aðferðar óttast að hinn kröftugi rykkur geti skemmt eina hinna fjögurra aðalslagæða, sem sjá heilanum fyrir blóði. Við það getur blóðtappi myndast í slagæðinni, sem getur stöðvað blóðflæði til heilans.
Um heim allan fara efasemdir ört vaxandi varðandi þessa "mjúku aðferð". Kanadískir taugalæknar hafa formlega gefið út tilkynningu, þar sem varað er eindregið við þeim hættum, sem fylgt geta háls- hnykkingarmeðferð. Einnig horfa regnhlífarsamtök aðila heilbrigðisstétta í Evrópu kvíðafull til þeirrar áhættu, sem meðferð af þessu tagi hefur í för með sér og getur leitt til heilablóðfalls og jafnvel dauða.
Almennt er fólki ekki ráðið frá því að gangast undir meðferð kírópraktora en þó er vert að benda fólki á að vera visst um að sá meðferðaraðili, sem beitir hnykkingarmeðferð, hafi tilskilin leyfi kírópraktors. Samt sem áður á að bjóða sjúklingum upp á opna umræðu og veita þeim skriflegar upplýsingar um mögulegar áhættur, sem hálshnykkingarmeðferðum fylgja. Ef til vill hugsa þá menn og konur sig tvisvar um áður en sú ákvörðun er tekin að gangast undir slíka meðferð.
Höfundur er náttúrulæknir, sálfræðingur og höfundur bókarinnar "Læknum með höndunum - nútíma þrýstimeðferð".

Birgitta Jónsdóttir  Klasen
Höfundur er náttúrulæknir og rithöfundur.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024