Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Aðsent

Halló; halló; Suðurnesjamenn, nær og fjær, vaknið; vaknið
Fimmtudagur 20. september 2007 kl. 15:25

Halló; halló; Suðurnesjamenn, nær og fjær, vaknið; vaknið

Það er með ólíkindum hvernig Sjálfstæðismönnum hefur tekist að selja stórann hluta í Hitaveitu Suðurnesja til einkaaðila,nokkurn vegin án nokkurrar umræðu. Hér er um að ræða fjöregg okkar Suðurnesjamanna. Margra áratuga uppbyggingu eins öflugasta fyrirtækis okkar hefur verið fórnað fyrir skammtíma sjónarmið “stórgrossera” sem sjá ekkert nema peninga í eigin vasa.

Heitt og kalt vatn er ein af grunnþörfum okkar samfélags
Hitaveita Suðurnesja er með einokun á sínu markaðssvæði hvað varðar heitt og kalt vatn. Allt veitukerfi vatns er eign Hitaveitunnar á markaðssvæði hennar. Hvernig er hægt að einkavæða þessa starfsemi án opinberrar umræðu og án þess að Alþingi hafi fjallað um hvernig hagsmunum almennings og fyrirtækja sem reiða sig á heitt og kalt vatn sé tryggt. Hvernig tryggjum við hagsmuni neytenda ? Getum við keypt heitt eða kalt vatn af hverjum sem er ?

Auðlindir eiga að vera eign samfélagsins
Hin hliðin á þessu stóra máli er hvort við sem sjálfstæð þjóð séum tilbúin til þess að leyfa að eignarhald á auðlindum þessa lands verði í einkaeign og á fárra manna höndum að nýta auðlindir þessarar þjóðar án endurgjalds. Að mínu mati eiga auðlindir landsins almennt að vera eign þjóðarinnar og þeir sem nýta sér þær eiga að greiða fyrir það afgjald. Er orkan í iðrum jarðar einkaeign fárra ? Er orkan í íslenskum fallvötnum á hálendi Íslands einkaeign fárra í krafti fjármagns stórgrossera ?

Útrás í krafti þekkingar
Ég er ekki með þessum skrifum að setja mig gegn útrás íslensku orkufyrirtækjanna í krafti þekkingar. Í því liggja mörg tækifæri fyrir okkar hæfileikaríka og vel menntaða fólk. Hins vegar er ekki hægt að gera það með því að fórna hagsmunum íslensks samfélags og selja okkar auðlindir. Orkuveita Reykjavíkur hefur t.d. gert þetta með því að stofna sérstakt útrásarfyrirtæki sem byggir á þekkingu. Auðlindinni og veitukerfi Orkuveitunnar er haldið aðskildu frá útrásarstarfseminni.

Orku-, vatns- og jarðvarmaréttindi eiga að vera eign samfélagsins
Veitukerfi Hitaveitu Suðurnesja og auðlindirnar sem Hitaveitan nýtir fyrir sína starfsemi eiga að vera í samfélagslegri eign. Annað er glapræði og í raun ótrúlegt hvað þetta hefur fengið að ganga langt. Ljóst er að aðgreina þarf orkuréttindi og orkuframleiðslu. Orkuréttindi, vatnsréttindi og jarðvarmaréttindi verða að vera eign samfélagsins. Þetta á að vera krafa okkar hér á Suðurnesjum.

Látum Alþingi í okkur heyra.

Eysteinn Jónsson
Bæjarfulltrúi í Reykjanesbæ
Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024