Hallar verulega á í fjárveitingum til Suðurnesja í nýju fjárlagafrumvarpi
- segir í ályktun Samtaka Atvinnurekenda á Reykjanesi vegna fjárlagafrumvarps 2019
Samtök Atvinnurekenda á Suðurnesjum harma mjög þær fréttir er berast af fjárlagafrumvarpi 2019 sem hljóma ekki vel fyrir Suðurnesjamenn.
Greining var gerð á því innan Samtaka Sveitarfélaga á Suðurnesjum (SSS) á fjárlagafrumvarpi fyrir árið 2018 og virðist engin breyting gerð í fjárlögum ársins 2019. Fjárveitingar ríkisins til stofnanna og verkefna á svæðinu sýndi að þar hallaði verulega á Reykjanesið, sama hvert sem litið var. Fjárveitingar til samgangna, heilbrigðisstofnunar, fjölbrautaskóla, lögreglunnar og fleiri verkefna ríkisins á hvern íbúa voru ekki aðeins lægri en á öðrum svæðum heldur var ekki tekið tillit til þeirrar gríðarlegu fólksfjölgunar sem er á svæðinu og þeirra vaxtaverkja sem henni fylgja. Um 23% íbúa á Reykjanesi eru af erlendu bergi brotin og því fylgja margar áskoranir og sérstaklega innan stofnana á vegum ríkis og sveitarfélaga.
Við (stjórn SAR) áttum fundi reglulega með þingmönnum umdæmisins þar sem þessi mál voru m.a. rædd en því miður hefur ekkert þokast í rétta átt og getur þetta haft gríðarlegar afleiðingar á svæðið til lengri tíma séð, sérstaklega með það í huga að innviðir eru á eftir í uppbyggingu sem mun halda áfram í tengslum við stærsta vinnustað svæðisins þ.e. Keflavíkurflugvöll. Ætli landið að halda eðlilegum hagvexti þarf að huga vel að þessu þáttum.
SAR mun áfram vekja athygli á þessum málum innan sinna félagsmanna sem og í samtölum við alþingismenn og aðra í stjórnkerfinu og er það okkar von að viðsnúningur verði á fjárlögum ársins 2019 sem og á 5 ára áætlun fjárlaga til að stuðla að réttri skiptingu fjármagns inn á svæðið.
Reykjanesið er mikilvægt fyrir atvinnustarfsemi landsins og er í raun að verða úthverfi höfuðborgarsvæðisins og því ber að tryggja samgöngur og annað sem styður við styrkingu svæðisins.