„Haldið í gíslingu innandyra“
Stjórn samtaka Andstæðinga stóriðju í Helguvík, tekur undir með bæjarráði Reykjanesbæjar að hluti íbúa Reykjanesbæjar hafi ítrekað orðið fyrir verulegum óþægindum og vanlíðan, vegna mengunar sem gengur þvert á forsendur starfleyfis verksmiðju United Silicon í Helguvík og að það sé með öllu ólíðandi.
United Silicon hefur ítrekað lofað bót og betrun á starfsemi sinni án árangurs og nú síðast þegar stjórn United Silicon lagði áherslu í yfirlýsingu sinni að vilji hennar væri að reka fyrirtækið í sátt við nærumhverfið. Í sömu yfirlýsingu bendir stjórn United Silicon á mælingaráætlun NILU sem bendir til þess að ekki séu í útblæstrinum frá verksmiðjunni efni sem skaðleg geta verið heilsu manna. Ef marka má hluta íbúa þá hafa þeir upplifað verulega skert lífsgæði vegna starfsemi United Silicon þar sem þeim er í sumum tilfellum haldið í gíslingu innandyra og geta ekki haft glugga opna. Þá hefur hluti íbúa fundið fyrir líkamlegum einkennum eins og auknum astmaeinkennum, hæsi, þurrk í hálsi og sviða í augum svo fátt eitt sé nefnt. Stjórn samtakanna telja það því með öllu óljóst að mengun frá United Silicon sé skaðlaus heilsu manna.
Stjórn samtakanna tekur jafnframt undir það að hluta með bæjarráði Reykjanesbæjar að rekstur verksmiðjunnar verði stöðvaður, svo koma megi í veg fyrir áframhaldandi mengun frá United Silicon. Stjórn United Silicon telur hins vegar að stöðvun verksmiðjunnar myndi ekki skila neinum árangri m.a. um áframhald rannsókna og hagsmuni kröfuhafa.
Varðandi áframhald rannsókna þá hefur verksmiðjan verið starfrækt í níu mánuði án þess að tekist hafi að stöðva mengun frá henni, þrátt fyrir liðsinni hóps sérfræðinga sem hafa verið þar að störfum undanfarið. Umhverfisstofnun hafnaði fyrr á þessu ári beiðni United Silicon um sex mánaða frest (sem senn líður undir lok núna þrátt fyrir að hafa aldrei verið veittur) til að koma mengunarmálum hjá sér í lag. Samtökin mótmæla því að fyrirtækinu verði veittur frekari frestur til rannsókna þar sem ekki liggur fyrir samþykki íbúa um að vera tilraundýr í slíkum rannsóknum. Málið er ósköp einfalt, annað hvort virkar verksmiðjan eða hún virkar ekki, og hefur hún ekki virkað frá því ofninn var ræstur í nóvember 2016.
Varðandi hagsmuni kröfuhafa þá er þessi verksmiðja þeirra áhætta frá upphafi til enda og þeir bera ríka samfélagslega ábyrgð í þessu máli.
Stjórn samtakanna skorar á yfirvöld að stöðva rekstur United Silicon með hagsmuni stórs hluta íbúa Reykjanesbæjar að leiðarljósi svo koma megi í veg fyrir frekari mengun frá United Silicon og frekari skerðingu á lífsgæðum íbúanna.
Fyrir hönd Andstæðinga Stóriðju í Helguvík
Stjórn ASH