Hagur bæjarbúa öðru framar!!
Líkt og fram kemur á vefsvæði Víkurfrétta stendur mikill styr um bókanir nefndarmanna A – listans í íþrótta- og tómstundaráði varðandi svokallaðar hvatagreiðslur tilhanda 6 – 18 ára börnum og unglingum sem koma í fyrsta sinn til greiðslu í upphafi nýs árs. Styrinn stendur einfaldlega um það, hvort að bókun undirritaðra varðandi stigvaxandi hvatagreiðslur sé í takt við stefnu A – listans fyrir síðustu kosningar. Það er hárrétt að stefna A – listans varðandi niðurgreiðslur á hvers kyns íþrótta – tómstunda- og tónlistariðkun fyrir síðustu bæjarstjórnarkosningar var 24 þúsund krónur á ári, því hljómar það skringilega að nefndarmenn A – listans láti bóka ósk upp á tvær þrepahækkanir næstu tvö árin þannig að hvatagreiðslan fari úr 7 þúsund upp í 14 þúsund að ári liðnu og síðan upp í 21 þúsund krónur að tveimur árum liðnum eða í upphafi árs 2010.
Málið er nú einu sinni þannig, að þegar að A – listinn gerir ráð fyrir 24 þúsund krónum á hvern einstakling á aldrinum 6 – 18 ára, hlýtur það að mótast af því hvernig forgangsröðun verkefna átti að vera miðað við að A – listinn væri við stjórn í bæjarfélaginu. Því miður er A – listinn ekki í meirihluta og augljóslega gera sjálfstæðismenn þessum málaflokki ekki jafn hátt undir höfði og til stóð hjá A – listanum. Ef við lítum á staðreyndir málsins þá er það deginum ljósara að í upphafi árs 2008 þá verður hvatagreiðslan 7 þúsund krónur, meirihlutinn hefur ákveðið það, það skiptir engu máli hversu hátt við gólum á bæjarstjórnarfundum eða nefndarfundum, þannig verður það, við fáum ekki 24 þúsund krónurnar samþykktar. Því hljótum við að ganga beint í það að reyna að hafa áhrif á framtíðina líkt og fram kemur í bókun undirritaðra, þ.e. reynt er að hafa áhrif á að greiðslurnar hækki stig af stigi á næstu tveimur árum og vonandi lengur !
Pólítík, ábyrgð og hagsmunir bæjarbúa
Þar sem undirritaðir hafa það að leiðarljósi að vinna að hagsmunum bæjarbúa og þá ekki síst börnum, unglingum og barnafólki, þá reynum við að sjálfsögðu að vinna að málinu með raunsæi að leiðarljósi, lái okkur það hver sem vill. Þar af leiðandi finnst okkur skynsamlegast að reyna að hafa áhrif á áframhaldandi stefnumótun hvatagreiðslna. Málið snýst fyrst og síðast um það að vinna að leið sem er öllum bæjarbúum til hagsbóta yfir lengri tíma. Ef við kíkjum rétt sem snöggvast á áætlaðan kostnað sem hlýst af hvatagreiðslum þá eru u.þ.b. 2500 aðilar sem eiga rétt á hvatagreiðslum, segjum að 2000 börn nýti sér styrkinn, þá gerir það um 14 milljónir króna, ef að hins vegar tillaga bæjarfulltrúa A – listans hefði náð fram að ganga þá hefði þessi kostnaður miðað við 2000 aðila farið upp í 48 milljónir króna. Gott og vel, þetta er hins vegar eitthvað sem að meirihlutinn hefur ekki efni á, líkt og fram kemur í bókun minni hlutans á bæjarstjórnarfundi þann 18. desember, sem segir meðal annars að stöðugur taprekstur hafi átt sér stað hjá meirihlutanum síðan að hann tók við árið 2002. Hins vegar er vel hægt að líta á þann möguleika að forgangsraða upp á nýtt, þannig að þessi málaflokkur hljóti meira vægi, en því miður er því ekki fyrir að fara hjá núverandi meirihluta á næsta fjárhagsári.
Gleðileg jól og gæfuríkt komandi ár
Eðvarð Þór Eðvarðsson fulltrúi A – listans í íþrótta- og tómstundaráði
Einar Helgi Aðalbjörnsson fulltrúi A – listans í íþrótta- og tómstundaráði