Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Aðsent

Hagsmunir nemenda tryggðir
Föstudagur 25. janúar 2013 kl. 09:00

Hagsmunir nemenda tryggðir

- Vegna viðtals við Jóhann Geirdal fráfarandi skólastjóra Holtaskóla.

Ég tel ástæðu til að undirstrika að undir minni stjórn verður ekki brotið með neinum hætti á rétti barna í skólanum hvort heldur er um er að ræða almenna nemendur eða nemendur í sérdeild skólans. Áhyggjur foreldra eða annarra hvað það varðar eru því óþarfar. Reykjanesbær mun ætíð fara að þeim lögum sem í landinu gilda. Nemendur í skólum Holtaskóla munu því líkt og endranær fá þá þjónustu sem þeir eiga rétt á og vel það.

Það er einfaldlega rangt sem fram kemur í viðtali við Jóhann Geirdal að fyrirhugaðar séu niðurskurðaraðgerðir í skólanum sem skerði rétt nemenda til náms og kennslu eða komi í veg fyrir að skólinn starfi sem skóli án aðgreiningar. Af hverju í ósköpunum ætti nokkur að vilja það? Slíkt er hreinasta firra. Hin einfalda staðreynd málsins er að skólinn hefur um árabil farið yfir á fjárhagsáætlun og nú er mál að linni.  

Skólinn hefur verið í fremstu röð og mun vera það áfram. Honum hefur líkt og alltaf verið tryggt nægilegt rekstrarfé til að sinna metnaðarfullu starfi í góðu samstarfi við foreldra og þannig mun það vera áfram.

Ef svo ólíklega vill til að í ljós kemur að útgjöld til Holtaskóla hafi í ár verið vanáætluð af einhverjum ástæðum mun ég finna leiðir til að leiðrétta það. Að sama skapi áskil ég mér rétt til að leita allra leiða til að halda rekstrinum innan rammans íbúum bæjarins til hagsbóta.

Ég tel mikilvægt að fram komi að Holtaskóli hefur frá árinu 2002 verið yfir á fjárhagsáætlun á hverju einasta ári að undanskyldu árinu 2009 þar sem reksturinn var í jafnvægi. Þetta tímabil fyrir og eftir hrun hefur Holtaskóli að jafnaði verið ríflega þrjú prósent yfir fjárhagsáætlun. Samt hefur Holtaskóli alltaf fengið sambærileg eða hærri framlög en aðrir skólar. Síðastliðið ár var engin undantekning í en yfirkeyrslan var þó í hærri kantinum miðað við meðaltal síðustu ára eða 6,2 prósent. Meðaltal yfirkeyrslu síðustu þriggja ára í Holtaskóla er 4,3% af fjárhagsáætlun. Það sem þetta þýðir í raun er að síðustu þrjú ár hefur skerðing á fjárveitingum til Holtaskóla verið óveruleg miðað við það sem almennt gerist í landinu eftir hrun.
Það er sjálfsögð krafa að skólastjórar standi þann fjárhagsramma sem þeim er úthlutaður eftir reglum sem flestir skólar á landinu nota. Það er einnig eðlilegt að leitað sé allra leiða til að hagræða og halda útgjöldum í lágmarki. Ef skóli fer yfir á fjárhagsáætlun ber að gera kröfu um að skólastjóri finni leiðir til að hagræða og reka skólann innan þess fjárhagsramma sem honum er úthlutað. Það hafa aðrir skólar getað og af hverju ætti Holtaskóli ekki að geta það? Það gengur ekki að hafna því fyrirfram að hægt sé að halda sér innan fjárhagsáætlunar.

Á næstu vikum og mánuðum verður farið vandlega yfir rekstur Holtaskóla. Það er óásættanlegt fyrir íbúa Reykjanesbæjar að skólinn fari ár eftir ár út fyrir þann fjárhagsramma sem honum er úthlutaður. Það er eðlilegt að gera sömu kröfur til hans og annarra skóla á landinu - Að hann verði rekinn innan ramma fjárhagsáætlunar á sama tíma og réttindi nemenda til góðrar kennslu við hæfi verði tryggð. Í þeirri vinnu verða hagsmunir nemenda tryggðir. Í því samhengi tel ég tel rétt að geta þess að óskað verður eftir aðstoð frá Greiningar -og Ráðgjafarstöð Ríkisins varðandi skoðun á sérdeild skólans til að tryggja það að deildin standist áfram ítrustu kröfur um fagleg vinnubrögð. Einnig verður óskað formlega eftir áliti Þroskahjálpar í þeirri vinnu svo tekið verði tillit til sjónarmiða nemenda og foreldra þeirra.

Holtaskóli mun ætíð standast ítrustu faglegar kröfur og vera öðrum skólum til fyrirmyndar líkt og hann hefur verið undanfarin ár. 

Virðingarfyllst,
Gylfi Jón Gylfason,
fræðslustjóri.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024