Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Aðsent

Hagsmunir Íslands ráða för
Miðvikudagur 13. október 2010 kl. 12:48

Hagsmunir Íslands ráða för


- eftir Stefán Hauk Jóhannesson.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Fyrir skemmstu naut ég þeirrar ánægju að taka þátt í aðalfundi sambands sveitarfélaga á Suðurnesjum í Grindavík og fjalla um samningaviðræður Íslands um aðild að Evrópusambandinu. Það var bæði gagnlegt og gaman að koma til Grindavíkur og eiga samtöl við heimamenn. Sem Vestmannaeyingur veit ég vel að það eru skiptar skoðanir um Evrópumálin um allt land. Um leið er ljóst að sveitastjórnarmenn eru reiðubúnir að ræða málefnalega hvaða tækifæri og möguleikar geta falist í samningunum fyrir Ísland, og hvaða hagsmuni þarf að verja með kjafti og klóm.
Flestir eru sammála um að hér þurfi að fara fram opin og hreinskiptin umræða um kosti og galla mögulegrar aðildar Íslands. Evrópusambandið er síður en svo fullkomið fyrirbæri. Það þekki ég vel eftir að hafa gætt hagsmuna fyrir Ísland í Brussel síðastliðin fimm ár. En um leið er ESB ekki alvont eins og t.d. frændur okkar í Danmörku, Svíþjóð og Finnlandi vita en allar þessar þjóðir hafa kosið að starfa innan vébanda sambandsins ásamt öðrum Evrópuríkjum. Við Íslendingar höfum svo tekið virkan þátt í Evrópusamvinnunni í gegnum EFTA og EES og raunar þegar tekið upp meirihluta af lögum ESB.
Grundvallarspurningin er þessi: Er hagsmunum Íslands betur borgið innan eða utan ESB? Til að geta svarað því þurfum við fyrst að semja og sjá þannig hvort tryggja megi grundvallarhagsmuni Íslands og hvaða ávinningur fellst í aðild. Þar mun t.d. reyna á hvort og hvernig ESB er reiðubúið að koma til móts við óumdeilda sérstöðu Íslands í sjávarútvegsmálum og landbúnaði. Raunar er það svo að ESB lítur mjög til þekkingar og reynslu Íslands í sjávarútvegi við yfirstandandi endurskoðun á sjávarútvegsstefnu sinni og viðurkennir sérstakar aðstæður Íslands í landbúnaði. ESB hefur í öðrum stækkunarlotum komið til móts við sérstakar aðstæður einstakra ríkja. Það mun einnig þurfa að gerast í tilviki Íslands eigi samningar að nást.
En samningaviðræðurnar snúast ekki bara um sjávarútveg og landbúnað. Einnig verður samið um hvernig Ísland mun taka þátt í byggða- og atvinnustefnu ESB. Að mati Sambands íslenskra sveitarfélaga eru góð tækifæri til staðar til að taka upp markvissara og árangursríkara verklag í byggðamálum og atvinnuuppbyggingu þar sem sveitarfélögin sjálf leika stærra hlutverk en verið hefur. Umhverfismálin og tollar á vörur til og frá Íslandi, með bættri stöðu fyrir íslenskan útflutning og neytendur, eru einnig dæmi um mál sem verða á samningaborðinu. Síðast en ekki síst snúast samningaviðræðurnar um hvernig tryggja má stöðugleika í íslensku efnahagslífi og skapa störf um allt land. Evrópumálin snúast um framtíð íslensku krónunnar og hvort hag okkar sé betur borgið með því að tengjast og taka upp evruna, og varða þannig kjör íslenskra heimila og fyrirtækja með beinum hætti.
Allt þetta þurfum við að ræða og meta út frá hagsmunum Íslands. Ég vil þakka sambandi sveitarfélaga á Suðurnesjum fyrir góðar móttökur á aðalfundinum í september og hreinskiptin skoðanaskipti. Ég hvet alla landsmenn til þess að fylgjast vel með Evrópumálunum og taka þátt í umræðunni. Það er mikið í húfi og þjóðin sjálf á lokaorðið.

Höfundur er aðalsamningamaður í samningaviðræðum Íslands við ESB. Allar upplýsingar um samningaviðræðurnar er að finna á evropa.utanrikisraduneyti.is