Hagsmunir bæjarfulltrúa skráðir opinberlega
Bæjarfulltrúar Samfylkingarinnar í Reykjanesbæ leggja fyrir reglur um skráningu á fjárhagslegum hagsmunum bæjarfulltrúa í Reykjanesbæ og trúnaðarstörfum þeirra fyrir bæjarstjórnarfund þriðjudaginn 22. nóvember. Bæjarstjórn setti sér siðareglur á síðasta fundi eins og gert hefur verið í nokkrum sveitarfélögum og nú leggjum við til í rökréttu framhaldi að bæjarfulltrúar Reykjanesbæjar, fyrstir bæjarfulltrúa á Íslandi, skrái hagsmuni sína fyrir opnum tjöldum á vefsíðu sveitarfélagsins.
Reglurnar um hagsmunaskráningu taka mið af reglum um skráningu á fjárhagslegum hagsmunum alþingismanna og trúnaðarstörfum utan þings sem voru samþykktar vorið 2009. Samkvæmt reglunum skulu bæjarfulltrúar m.a. skrá launaða starfsemi aðra en setu í bæjarstjórn, skrá launaða stjórnarsetu sem kosið er til að af bæjarstjórn, skrá launaða stjórnarsetu í einkareknum eða opinberum félögum og gera grein fyrir fjárhagslegum stuðningi, gjöfum, utanlandsferðum og eftirgjöfum eftirstöðva skulda. Þá skulu bæjarfulltrúar skrá upplýsingar um stjórnarsetu og önnur trúnaðarstörf fyrir hagsmunasamtök, opinberar stofnanir, sveitarfélög og félög - óháð því hvort þessi störf eru launuð eða ekki.
Skráning þessi er ætluð íbúum og kjósendum í Reykjanesbæ til upplýsingar og til þess að auka gagnsæi í störfum bæjarstjórnar Reykjanesbæjar. Það er ein af grundvallarreglum í stjórnmálum lýðræðisríkja að kjörnir fulltrúar taka ákvarðanir um hvaða hagsmuni eigi að taka fram yfir aðra, hvernig eigi að forgangsraða. Þess vegna er mikilvægt að kjósendur hafi upplýsingar um það hvar hagsmunir bæjarfulltrúa ligggja, sérstaklega þegar taka þarf erfiðar ákvarðanir á erfiðum tímum eins nú í bæjarstjórn Reykjanesbæjar.
Bæjarbúum og öðrum áhugamönnum um betri stjórnmál er bent á að kynna sér reglurnar á xsreykjanesbaer.is
Eysteinn Eyjólfsson
bæjarfulltrúi Samfylkingarinnar í Reykjanesbæ