Hagsmunasamtök heimilanna funda í Reykjanesbæ í kvöld
Hagsmunasamtök heimilanna munu standa fyrir opnum félagsfundi í kvöld, þriðjudaginn 23. júní kl. 20:00, þar sem yfirskriftin er greiðsluverkfall. Fundurinn fer fram í Frumleikhúsinu, Vesturbraut 17 í Reykjanesbæ. Félagsmenn munu verða beðnir um að ganga til kosninga um hvort samtökin skulu hefja formlegt greiðsluverkfall. Formleg atkvæðagreiðsla fer fram með rafrænum hætti í kjölfar fundarins.
Fundurinn samanstendur af stuttu erindi um greiðsluverkfallið, tilhögun, markmið og tilgang og umræðum fundarmanna. Borin verður upp ályktun fundarins og leitað samþykkis fundarmanna. Í kjölfarið verður sett af stað kosning um hvort stjórn HH fái umboð til skipunar verkfallsstjórnar. Fáist slíkt umboð hjá félagsmönnum mun sú verkfallsstjórn sem stjórnin setur saman ákveða nánar um framkvæmd greiðsluverkfallsins. Eins og áður sagði fer kosningin fram með rafrænum hætti í kjölfar fundarins.