Karlakór Kef kertatónleikar
Karlakór Kef kertatónleikar

Aðsent

Hafsteinn og mamma hans: grein um Sandgerðing í Nýsjálensku blaði
Miðvikudagur 18. febrúar 2004 kl. 13:04

Hafsteinn og mamma hans: grein um Sandgerðing í Nýsjálensku blaði

Ég rakst á grein í bæklingi frá árinu 2001, sem heitir „The Big OE“ – Tales from New Zealand Travellers (frásögur nýsjálenskra ferðamanna), og datt í hug að snara hluta af henni yfir á íslensku, ef einhver kynni að þekkja til og/eða hafa gaman af greininni. Þar segir m.a., undir fyrirsögninni „Bundled with Hafstein’s Mama“ frá Jocelyn Macdonald, sem er Nýsjálendingur, og dvöl hennar á Íslandi. Jocelyn hafði verið í Skotlandi ásamt vinkonu sinni vorið 1964 og nokkrir ungir Bandaríkjamenn sögðu þeim þar frá öllum þeim auðævum, sem fengjust á Íslandi í tengslum við fiskvinnu. Þetta fannst vinkonunum mjög áhugavert, en þær voru orðnar leiðar á Edinborg. Jocelyn og Wendy, vinkona hennar, heimsóttu síðan íslenska sendiráðið og fengu far frá Glasgow til Reykjavíkur og voru ráðnar í vinnu.

Í frásögninni er landslagi á Suðurlandi lýst á fjörmikinn hátt og þá sérstaklega malarveginum á milli Keflavíkur og Sandgerðis, þar sem kom fyrir að sveigja þurfti fyrir stórgrjót. Einnig er aðstöðu starfsfólks í bröggunum lýst og hversu skemmtilegt lífið hefði verið þá, þrátt fyrir mjög einhæft mataræði, sem er lýst sem soðnu lambakjöti í hádeginu og þá fylgdi soðinn fiskur á kvöldin, ef soðinn fiskur var í hádeginu, þá var soðið lambakjöt á kvöldin. „By the end of a week, we would have killed for a banana“, segir Jocelyn.

Sveitaböllin og drykkjusiðir Íslendinga fá sinn skammt. Ein heilleg saga er síðan sögð um einn pilt, sem hét Hafsteinn. Frásögnin er á þessa leið, lauslega þýdd: “Hann var með dásamlegt liðað hár og græn augu. Hann var mjög aðlaðandi ungur maður, sem hafði lítinn orðaforða í ensku, ekki mikið meiri en minn orðaforði var í íslensku, en gat þó haldið uppi takmörkuðum samræðum. Eina helgina bauð hann mér að hitta fjölskyldu sína. Þau áttu heima einhversstaðar sem var um þriggja tíma akstur í austur, eftir afar holóttum malarvegi. Hann átti þrjá bræður, sem allir bjuggu hjá foreldrum sínum í pínulitlum bóndabæ. Fjölskyldan stundaði gróðurhúsarækt og ræktuðu tómata í glerhúsum og voru að auki með nokkrar kindur.

„Mama“ talaði enga ensku, þannig að samræðurnar fóru fram í gegnum Hafstein. Guð einn veit, hvað misskilið var eða týndist í samræðunum. Fyrst sagði Mama með breiðu brosi: „Það gleður mig að kynnast þér“ – Og Hafsteinn sagði: „Mama is very pleased to meet you.“ Síðan sagði Mama: „Má bjóða þér fleiri kartöflur?“ Og sonur hennar þýddi: „Would you like some more potatoes.“ Ég svaraði „No thank you, I have had quite enough“. Ég var mjög vel upp alinn Kiwi (innsk. grínheiti á Nýsjálendingum). Síðan tók Mama aftur við: „Hvað áttu marga bræður og systur í Nýja Sjálandi?“ Og ég svaraði: „Two brothers and a sister, tvo bræður og eina systur“. Og þannig héldu samræðurnar áfram.

Jocelyn segir síðan frá því, að Mama hafi boðið þeim upp á brennivín og sagt „Þú ert mjög falleg“. Síðan sagði hún, eftir því, sem Hafsteinn þýddi fyrir Jocelyn: „Mikið er ég fegin að Hafsteinn hefur loksins fundið sér góða konu. Ég hlakka svo til að hitta mömmu þína elskan. Við skulum hafa glæsilegt kirkjubrúðkaup og þú getur unnið í gróðurhúsinu. Hvað um það, ég er þreytt. Þið Hafsteinn getið verið í bakherberginu. Sofið vel.“ Hafsteinn var brosandi út undir eyru og virtist mjög ánægður með sjálfan sig. En þegar Jocelyn heyrði þýðinguna spratt hún upp og svelgdist á á brennivíninu. Síðar var mikið hlegið og að endingu sagði Hafsteinn: „Mama segir, að ef þú vilt ekki sofa hjá mér, mátt þú sofa hjá henni.“. Það var ekki úr mörgu að velja, svo Jocelyn svaf hjá mömmu Hafsteins.  Sagan heldur enn áfram, en að lokum segir að Jocelyn hafi frétt, eftir að hún kom aftur til Sandgerðis, að Hafsteinn hafi verið „trúlofaður“ mörgum sinnum áður og átt slatta af börnum í næstu þorpum.

Þetta er greinilega einhvern tíma eftir 1964. Ef einhver vill eiga eða fá að lesa  frásögnina alla, eða kannast við fólkið, er honum velkomið að hafa samband við undirritaða.
     
Eva Hreinsdóttir
[email protected]

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024