Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Aðsent

Hafa Suðurnesjamenn átt ráðherra?
Föstudagur 20. október 2006 kl. 16:27

Hafa Suðurnesjamenn átt ráðherra?

Man einhver eftir því að Suðurnesjamenn hafi átt ráðherra í ríkisstjórn Íslands? Fyrir nokkrum dögum var ég að velta þessari spurningu fyrir mér og gat með engu móti munað eftir einhverjum Suðurnesjamanni í ráðherraembætti.
Í dag sitja tveir Suðurnesjamenn á Alþingi, Jón Gunnarsson fyrir Samfylkinguna og Hjálmar Árnason fyrir Framsóknarflokkinn. Gunnar Örlygsson er að vísu Suðurnesjamaður en var kosinn á þing fyrir Frjálslynda í Suðvestur kjördæmi og hefur nú skipt yfir í Sjálfstæðisflokkinn. Í þeim miklu ráðherraskiptum sem átt hafa sér stað í núverandi ríkisstjórn, hefur Hjálmar a.m.k. tvívegis setið eftir án þess að ná þeim árangri að verða ráðherra.
Ef við lítum til komandi alþingiskosninga vorið 2007 , sjáum við nú þegar í hvað stefnir. Sjálfstæðismenn koma ekki til með að tefla fram Suðurnesjamanni í efstu sætum þar sem lánsmaðurinn Árni Mathiesen úr Hafnarfirði og Vestmannaeyingurinn Árni Johnsen koma til með að skipa efstu sætin. Gera má ráð fyrir að framsóknarlistinn verði óbreyttur, Guðni í 1. sæti og Hjálmar í 2. sæti. Vinstri grænir hafa þegar ákveðið að Reykvíkingurinn Atli Gíslason skipi 1. sæti í Suðurkjördæmi en ekki liggur ljóst fyrir hvað Frjálslyndir ætla að gera. Eina von Suðurnesjamanna liggur hjá Samfylkingunni með öflugum stuðningi við Jón Gunnarsson til forystu.
Fyrir kjördæmabreytinguna árið 2003 voru Suðurnesin hluti af Reykjaneskjördæmi og þá þurftu Suðurnesjamenn sem kjörnir voru á þing ávallt að víkja fyrir Hafnfirðingum, Kópavogsbúum og öðrum sem þóttu eiga meira tilkall til ráðherrastóla. Með breytingunni 2003 þar sem Suðurnesin urðu hluti af Suðurkjördæmi er okkar landshluti orðinn fjölmennastur í kjördæminu með yfir 40% íbúa. Þrátt fyrir það ætla Suðurnesjamenn enn að láta það yfir sig ganga að eiga ekki forystumenn í framboði til Alþingis, eða hvað?
Samfylkingin hefur boðað til prófkjörs 4. nóvember n.k. Þar gefur kost á sér í 1. sæti, Suðurnesjamaðurinn Jón Gunnarsson, sem nýtur mikils trausts og hefur starfað m.a. sem sveitarstjórnarmaður til fjölda ára og alþingismaður frá árinu 2003. Í störfum sínum þar, sem hann vinnur hljóðlega og af samviskusemi, en ekki með bægslagangi í fjölmiðlum, hefur Jón sýnt að hann er fremstur meðal jafningja.
Ég vil eindregið hvetja Suðurnesjamenn til að standa öfluga saman og sýna metnað sinn með því að kjósa Jón Gunnarsson til forystu.
Dæmin sanna að það skiptir miklu máli fyrir einstaka landshluta að eiga ráðherra og ég trúi því að þjóðin gefi núverandi, örþreyttu og á margan hátt spilltu stjórnarsamstarfi Sjálfstæðis- og Framsóknarflokks frí. Það eru sterkar líkur á  að Samfylkingin taki forystu um myndun ríkisstjórnar eftir næstu kosningar og þá verður ekki gengið framhjá Jóni Gunnarssyni í ráðherraembætti sem forystumanni í Suðurkjördæmi.
Við íbúar Suðurnesja hljótum að sýna samstöðu og metnað í prófkjöri Samfylkingarinnar 4. nóvember n.k. og fjölmenna til stuðnings okkar manni, Jóni Gunnarssyni.

Reynir Ólafsson.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024