Hafa skal það sem sannara reynist
Að gefnu tilefni viljum við leiðrétta þann misskilning að það voru kórfélagar sem boðuðu sóknarnefndarformenn á fund en ekki öfugt. Á þessum fundi tilkynntu kórfélagar að þeir ætluðu að láta af störfum. Þessi ákvörðun er ekki eingöngu byggð á lækkun á greiðslum til kórsins heldur eru margir þættir sem spila þarna hlutverk sem við ætlum ekki að tíunda hér.
Í kórunum eru 9 félagar í Sandgerði og 7 í Garðinum ásamt því að hafa einstaklinga sem hægt hefur verið að kalla til ef á þurfti að halda. Einnig hefur undanfarin ár verið mikil samvinna á milli kóranna fyrir stærri athafnir.
Okkur þykir leitt að umfjallanir fréttamiðla síðustu daga hafa gefið í skyn að organista sóknarinnar hafi verið sagt upp í kjölfar ákvörðunar okkar. Við teljum að þetta sé ekki rétt þar sem tónlistarlíf muni halda áfram í einhverri mynd innan safnaðarins. Það er einlæg ósk okkar að tónlistarlíf safnaðarins blómstri og látum við af störfum með þeirri von.
Stjórn kórs Hvalsneskirkju og stjórn kórs Útskálakirkju