Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Aðsent

Hafa skal það sem sannara reynist – eða hvað ?
Föstudagur 13. apríl 2007 kl. 11:00

Hafa skal það sem sannara reynist – eða hvað ?

Í Víkurfréttum í dag er grein eftir Björgólf Þorsteinsson, formann Landverndar, undir fyrirsögninni „hafa skal það sem sannara reynist“. Mér finnst Björgólfur þar reyna að skauta fimlega framhjá ábyrgð á þeim reiknikúnstum (Ástu Þorleifsdóttir) sem ítrekað hafa komið fram á fundum/ráðstefnum sem Landvernd hefur staðið fyrir eða verið aðstandandi að. Björgúlfur segir einnig að Landvernd hafi ALDREI lagt fram neinar tölur en ef heimasíða Landverndar er skoðuð, eins og Björgólfur reyndar hvetur lesendur til að gera, þá blasir við frétt Landverndar þar sem sagt er í formála að „eldfjallagarður myndi skapa milljarða tekjur og hundruðir starfa“. Með þessu er Landvernd að mínu viti að gera útreikninga Ástu að sínum og getur því ekki skorast undan ábyrgð á þeim vitleysum sem þar koma fram og hafa verið ítrekaðar án leiðréttingar á 3 – 4 slíkum fundum. Fyrir aðalfund HS hf, sem var 30. mars, skoðaði ég einmitt heimasíðu Landverndar og sá þá þessa frétt Landverndar og það sem samtökin kusu sérstaklega að vekja athygli á  (var reyndar það eina sem sérstaklega er nefnt úr þeim erindum sem flutt voru á Sóla/Landverndarfundinum í Hafnarfirði 24. mars.) 
Ég vona síðan að HS hf eigi áfram gott samstarf við Landvernd og vona að útreikningur eins og fram komu í erindi Ástu og ég tel Landvernd hafa tekið undir, heyri fortíðinni til.
Ég sendi einnig hugleiðingar mínar um eldfjallagarðinn sem eru efnislega þær sömu og ég flutti á aðalfundi HS hf þar sem fram kemur greinilega hver átti útreikningana.

Júlíus Jónsson
Forstjóri HS hf



ELDFJALLAGARÐUR Á REYKJANESI ?!
Landvernd o.fl. hafa verið að kynna framtíðarsýn sína um eldfjallagarð (!) á Reykjanesskaga. Ég verð að játa, að þegar ég heyrði þetta fyrst þá skildi ég alls ekki viðskiptahugmyndina, m.a. vegna þess að ég er búinn að sitja í stjórn Bláa lónsins í ein 10 ár og þekki því nokkuð vel til í svipuðum rekstri. Ég  verð einnig að játa að skilningur minn batnaði síður en svo og hvarf reyndar satt að segja alveg þegar ég las frétt í Víkurfréttum 8. mars frá ráðstefnu Landverndar.
Þar kynnti Ásta Þorleifsdóttir jarðfræðingur  eldfjallagarð á Hawaii sem fengi 3,3 milljónir gesta og hefði um 5 milljarða í árstekjur. Ásta sagði líka að “í samanburði gæti eldfjalla-garður á Reykjanesi haft margt fram yfir garðinn á Hawaii” og nefndi þá staðsetningu Íslands og staðsetningu á Íslandi auk þess að hér gengi úthafshryggur á land með eldsumbrotum og jarðhræringum. 
---------------------------------------
Samkvæmt heimasíðu Hawaii garðsins kostar USD 10 fyrir einkabíl og farþega í 7 daga í garðinn og USD 5 fyrir einstakling í 7 daga. Þar er bent á 3 tíma ferðir þar sem ekin er 18 km hringur og 5 tíma ferð þar sem ekin er 32 km hringur og “klifrað” upp um rúma 1.100 metra.
Ég fór sjálfur í þennan garð 1995, aðallega vegna þess að þar var stöðug eldvirkni í gangi, þó ekki væri hún mikil. Ég man reyndar ekki eftir að hafa þurft að greiða neitt þegar við fórum í þjónustumiðstöðina þaðan sem við sáum hraunefjuna gúlpast upp, nær var ekki ráðlegt að fara.
• Á Hawaii er stöðug eldvirkni í gangi en á Reykjanesskaga gaus síðast 1326 að mér er sagt.
•  Til Íslands koma nú um 400 þúsund ferðamenn árlega en gestir í garðinn á Hawaii eru sagðir 3,3 milljónir.
• Á Hawaii er sumarveður nánast allt árið.
• Í Hawaii garðinum eru góðir vegir sem mjög eru nýttir en þá þyrfti að leggja hér (eða hvað) ?
• Á Hawaii eru nokkuð há eldfjöll sem skera sig úr landslaginu en hér eru lágir, fallegir gígar sem reyndar þola illa og ekki mikla umferð.
--------------------------------------
• Bláa lónið, sem er skilgetið afkvæmi jarðhitavinnslu á Reykjanesi, laðaði til sín tæplega 400 þúsund gesti á síðasta ári, sem samsvarar fjölda erlendra ferðamanna til landsins.
• Fjárfestingar í baðstað Bláa lónsins hf, sem er heilsársstaður, nema nú um 1.100 m.kr. og unnið er að stækkun hans. Aðgangseyrir á árinu 2006 nam um 430 m.kr. og eðlilega er gjaldskrá mun hærri en í Hawaii eldfjallagarðinum.
• Niðurstaða mín er því sú, að þó að hugmyndin sé kannski falleg og hljómi vel, þá virðist hún vera afskaplega rýr viðskiptahugmynd. Mín persónulega skoðun, sem ef til vill þykir kaldhæðin, er sú að helsta vonin til frekari uppbyggingar arðbærar  ferðaþjónustu sem tengist náttúru skagans liggi í frekari virkjunum og tengslum þeirra við fræðsluferðaþjónustu samanber Bláa lónið og vonandi Orkuverið jörð á Reykjanesi o.fl.
 
 

Við skoðun á glærum Ástu á heimasíðu Landverndar og frekari skoðun á heimasíðu garðsins má sjá hvernig hugmyndin verður  viðskiptahugmynd. Tekjur garðsins eru sagðar vera $ 7.000.000 og með því að reikna með að gengi $ sé 700 kr. í stað 70 kr.  (66 kr. í dag) þá fást 5 milljarða tekjur. Þetta er því greinilega vonlaus valkostur í atvinnumálum eða hvað og greinilegur alls ekki valkostur við álver og virkjanir. Ég held reyndar að slíkur garður gæti jafnvel átt rétt á sér og fallið vel að frekari virkjunum og t.d. orðið „thema“ virkjunar í Krýsuvík ásamt hugmyndum um norðurljósagarð. Þessar hugmyndir ganga ekki að mínu mati sem sjálfstæðar einingar nema með miklum (opinberum) styrkjum en sem hluti af arðbærum virkjunum geta þær verið áhugaverðar.
Til að fyrirbyggja þann misskilning að villan liggi í að $ 7.000.000 þannig að þar eigi að standa $ 70.000.000 má vitna í heimasíðu garðsins þar sem fram kemur að gestir 2004 hafi verið 2.564.761 og að árlegar rekstrartekjur (annual operating program) séu áætlaðar $ 5.558.000. Þetta eru nýjustu upplýsingarnar á heimasíðunni.   
Reykjanesbæ, 30. mars 2007.

Júlíus Jónsson,
Forstjóri HS hf


Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024