Hafa áhyggjur af HSS
Eftirfarandi fréttatilkynning frá stjórnendum Heilbrigðisstofnunar Suðurnesja vakti athygli okkar í stjórn Styktarfélag Heilbrigðisstofnunar Suðurnesj :
Vegna skorts á fjármagni til reksturs Heilbrigðisstofnunar Suðurnesja (HSS) er nauðsynlegt að draga úr þjónustu heilsugæslunnar.Á fjárlögum árinu 2008 fékk Heilbrigðisstofnun Suðurnesja 1.609.800.000 kr. eða 78.734 kr. á íbúa m.v. 20.446 íbúa. Þegar litið er á fjárveitingar til átta annarra sambærilegra stofnana m.v. íbúafjölda er þessi upphæð langlægst án frekari skýringa. Sú heilbrigðisstofnun sem næst kom fékk 101.013 kr. á íbúa og sú sem mest fékk, var með 200.976 kr. á íbúa. Vegna þessara erfiðleika í rekstri hefur á undanförnum mánuðum verið reynt að fá leiðréttingar á fjárveitingum hjá heilbrigðisráðuneytinu án árangurs. Sérstaklega eru fjárveitingar lágar á heilsugæslusviði. Ef HSS fengi jafnháa fjárhæð og sú stofnun sem næstlægsta upphæð fær, ætti hún að fá 450.000.000 kr. í viðbót á árinu 2008.
Þetta er ljótt að sjá en því miður ekki nýtt að við hér á Suðurnesjum njótum ekki sömu þjónustu og flestir aðrir landsmenn
Þá kemur frá stjórnendum HSS:
Frá og með 10. júní var hraðmóttöku á heilsugæslu lokað en sú þjónusta naut mikilla vinsælda og létti mjög á annarri starfsemi heilsugæslu.
Frá og með 16. júlí mun heilsugæsluvakt leggjast af utan dagvinnu. Sjúklingum verður vísað á læknavaktina í Reykjavík og á slysadeild LSH. Læknir verður á neyðarvakt á HSS og mun sinna neyðartilvikum. Ef neyðartilfellli ber að höndum á að hringja strax í 112, sem hefur samband við lækni á neyðarvakt.
Þessar ráðstafanir hafa væntanlega verið gerðar að fyrirmælum ráðamanna til þess að útgjöld væru í samræmi við fjárveitingar til HSS.
Nú hafa stjórnendur HSS ákveðið samkvæmt fréttatilkynningu að opna ekki hraðmóttöku aftur sem var nýjung og var mjög vinsæl og bætti mjög þjónustu til íbúa á svæðinu. Síðdegisvaktin utan dagvinnu verður hinsvegar opin áfram eins og verið hefur og er það vel, en ekki liggur fyrir nú að Sjúkrahúsið fái aukið fjárframlag í samræmi við beiðnir. Stjórnendur HSS hafa reynt að fá leiðréttingu á fjárveitingum og rökstutt þær með samanburðatölum við aðrar heilbrigðisstofnanir. Má því reikna með að önnur þjónusta verði ekki aukin eins og gert var ráð fyrir og dregið verði úr þjónustu sem fyrir er og áætlað var að auka.
Eftirfarandi spurninga vakna:
Verður ekki staðið við aukna starfsemi skurðstofu eins og lofað hefur verið nokkur undanfarin ár ?
Er áætlað að draga úr þjónustu við aldraða á A-gangi sjúkrahússins? Þar má allra síst draga úr þjónustu á sama tíma og biðlisti aldraðra og sjúkra eru að nálgast 40 manns sem eru í mjög brýnni þörf fyrir vistun í hjúkrunarými.
Framkvæmdir við byggingu hjúkrunarheimilis við Nesvelli sem áætlað er að rísi á Nesvöllum hafa ekki enn hafist þó að loforð um það hafi verið gefin reglulega á hverju ári síðustu fimm ár að minnsta kosti.
Stjórnin krefst þess að ekki verði dregið úr þeirri þjónustu sem fyrir er á HSS og að Suðurnesjamenn njóti sömu þjónustu og aðrir landsmenn. Við krefjumst þess að þegar verði hafist handa um byggingu hjúkrunarheimilis eins og ítrekað hefur verið lofað þar sem þörfin er mikil. Nú í dag eru 40 sjúkir aldraðir í mjög brýnni þörf fyrir vistun á hjúkrunarstofnun.
Reykjanesbæ 20. júli 2008
Fyrir hönd stjórnar Styrktarfélags Heilbrigðisstofnunar Suðurnesja
Þorbjörg Pálsdóttir formaður