Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Aðsent

Miðvikudagur 9. febrúar 2000 kl. 16:13

Hættulegir vegir eða hættulegir ökumenn?

Kæri samlandi Mikið hefur verið rætt og ritað um okkar ágætu Reykjanesbraut á umliðnum árum vegna tíðra slysa. Sitt sýnist hverjum en allir eru sammála um að tvöfalda þurfi brautina. Hins vegar fór ég að hugsa, eftir að hafa ekið hana tvisvar til Reykjavíkur með stuttu millibili, hvað er að í raun og veru? Þannig var að í fyrra skiptið þegar ég ók brautina og var staddur á Strandarheiði, var bíll á undan mér sem ekið var á um 75-80 km hraða og ég hugsaði með mér að fara bara fram úr honum þegar vel stæði á eftir að við værum komnir upp úr Kúagerðinu. En viti menn, í Kúagerðinu jók ökumaðurinn hraðann og ók nú á u.þ.b. 90-100 km hraða. En hvað, við þetta virtist sem ökumaður hefði ekki fulla stjórn á bifreiðinni. Hann ók margsinnis yfir á öfugan vegarhelming svo að stór hætta stafaði af. Hafði ég því símasamband við lögregluna í Hafnarfirði og lét þá vita. Við kirkjugarðinn í Hafnarfirði mættu lögreglumenn umræddum bíl og óku þeir á eftir honum. En þeir voru því miður of seinir því ökumaður bifreiðarinnar áttaði sig ekki á að rautt ljós var á umferðarljósunum framundan og ók því aftan á kyrrstæðan bíl sem beið á rauðu ljósi. Sá ég að lögreglumennirnir studdu ökumann bifreiðarinnar úr bifreiðinni og inn í lögreglubifreiðina og var vel sjáanlegt að ökumaður var ekki í ástandi til að aka bifreið. Í hitt skiptið var ég á sömu leið og staddur á Strandarheiði er ég veitti því athygli að framúrakstur var í gangi hjá ökumanni sem var á leið til Keflavíkur, þrátt fyrir mikla umferð frá Keflavík. Það skipti engum togum að þegar ég mætti bifreiðinni voru þrjár bifreiðar samsíða á brautinni. Ökumaður bifreiðarinnar, sem verið var að aka framúr, sá þann kost einan að fara út á vegaröxlina til þess að koma í veg fyrir slys og kann ég honum bestu þakkir fyrir. Eftir þessa reynslu fór ég að hugsa, jú Reykjanesbrautin er slæm, en eru sumir ökumenn ekki bara snar klikkaðir. Og síðan enn aðrir sem vanmeta getu sína sem ökumenn og aka of hratt miðað við aðstæður. Ég held, kæru samlandar, að við verðum að fara að hugsa örlítið út í þann fjölda slysa sem verða í umferðinni, hvers vegna þau verða og hvað er til ráða til að fækka þeim. Mín skoðun er sú að bara við það að fara eftir grunnreglum umferðarinnar, þ.e. að aka miðað við aðstæður, þá væri hægt að fækka slysum verulega. Einnig megum við ekki gleyma góða skapinu og tillitsemi við aðra vegfarendur. Kveðja, Hrafn Ásgeirsson
Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024