Karlakór Kef kertatónleikar
Karlakór Kef kertatónleikar

Aðsent

Hættu þessu tauti og vertu með
Laugardagur 5. nóvember 2011 kl. 11:48

Hættu þessu tauti og vertu með

Eitt er að segja og annað að framkvæma. Stjórnmálamenn eru oft á tíðum gagnrýndir fyrir að lofa öllu fögru fyrir kosningar og standa síðan ekki við neitt. Það á ekki við um fulltrúa Framsóknar í bæjarstjórn Reykjanesbæjar. Kristinn Þór Jakobsson hefur unnið ötullega að því að uppfylla þau kosningaloforð sem framboðið lagði fram í stefnuskrá sinni vorið 2010 en áherslan var lögð á aukið íbúalýðræði. Okkur þykir ekki nóg að kjósa fulltrúa á fjögurra ára fresti. Við viljum meira aðhald og opnara kerfi.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024


Íbúalýðræði-hvernig þá?

Við erum svo lánsöm að búa við fulltrúalýðræði á Íslandi. Með atkvæði okkar getum við haft áhrif á hverjir stjórna samfélaginu sem við búum í. Við kjósum okkur fulltrúa sem á að tala máli okkar. Sum mál eru þess eðlis að vil teljum að íbúar eigi að geta komið að ákvarðanatöku í sérstökum kosningum. Aukið íbúalýðræði er rauði þráðurinn í stefnu Framsóknar. Okkar hugmynd er að íbúar geti farið fram á kosningar, þ.e. ef a.m.k.30% kosningabærra íbúa skrifa undir lista. Við viljum einnig að íbúar geti komið málum á dagskrá bæjarstjórnar og að reglulega yrðu opnir bæjarstjórnarfundir þar sem íbúar gætu haft málfrelsi.


Unga fólkið veit hvað það vill

Hluti af tillögupakka Framsóknar var stofnun Ungmennaráðs (UNGÍR). Tilgangur ráðsins er að veita ungmennum farveg til að hafa áhrif á sitt nærumhverfi. Ráðið verður skipað 13 einstaklingum úr ólíkum áttum og 13 varamönnum. Þau funda reglulega og leggja fram tillögur sem síðan koma til afgreiðslu hjá bæjarstjórn og bæjarráði. Með þessu móti teljum við að rödd unga fólksins okkar fái meiri hljómgrunn og þjónustan í samfélaginu endurspegli þeirra áherslur.


Hlutverk bæjarbúa

Góð stjórnun í bæjarmálum er ekki bara á ábyrgð bæjarstjórnarmanna og bæjarstjóra. Við gefum þessum aðilum vald með atkvæði okkar og við eigum að gera kröfur og veita aðhald. Við eigum ekki að láta kjörna fulltrúum bauka afskiptalausa í sínu horni í fjögur ár, og tauta svo bara við matarborðið hvað þessi og hinn gerði eða gerði ekki. Bæjarfulltrúar vilja og þurfa að fá endurgjöf frá bæjarbúum. Við gerum oft ráð fyrir að þeir viti hitt og þetta, af því að við vitum það sjálf, svo er ekki. Það er lítið mál að hringja eða skrifa tölvupóst, nú eða senda skilaboð á Facebook. Boðleiðir í dag eru stuttar og hraðar, notum þær í þessu samhengi.


Siðareglur fyrir kjörna fulltrúa

Það sem einum þykir í lagi þykir öðrum ekki í lagi. Þegar við settum saman stefnuskrána okkar þá könnuðum við hvort einhverjar reglur væru til um siðareglur fyrir kjörna fulltrúa Reykjanesbæjar. Þær voru ekki til þannig að við lögðum í vinnu við að búa til tillögur að siðreglum. Í þeim eru m.a. greinar um trúnað, stöðuveitingar, gjafir o.fl. Þær hafa nú verið lagðar fram í bæjarráði, sem og lýðræðistillögurnar okkar eftir endurskoðun lýðræðisnefndar Reykjanesbæjar. Það er skemmst frá því að segja að mikil jákvæðni og samstaða hefur ríkt í bæjarráði gagnvart öllum tillögum Framsóknar og nefndin sem tók þær til endurskoðunar á heiður skilinn fyrir gott starf.


Gerum gott samfélag betra og vinnum saman!


Silja Dögg Gunnarsdóttir, varabæjarfulltrúi Framsóknar í Reykjanesbæ.