Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Aðsent

Hættu nú að ljúga Ásmundur
Jasmina Crnac.
Fimmtudagur 26. október 2017 kl. 08:00

Hættu nú að ljúga Ásmundur

Ég þarf að létta á hjarta mínu. Ég þarf nefnilega ekki að hafa umburðarlyndi gagnvart fólki sem beitir hræðsluáróðri með hreinum blekkingum og notar hann til að tala með andúð gegn minnihlutahópum í samfélaginu. Í mörgum greinum sem Ásmundur Friðriksson, alþingismaður, hefur fengið birtar, þ.m.t. einni nýlegri velur hann að bera fyrir sig staðleysu og villandi upplýsingum í þeim tilgangi að hræða fólk til fylgilags við sinn málflutning. Með því ræðst hann á garðinn þar sem hann er allra lægstur því fæstir þeirra sem hann elur á andúð á, geta svarað fyrir sig. Ásmundur hefur vissulega rétt á sínum skoðunum en hann hefur ekki rétt til að blekkja og ljúga.

Hælisleitendur eru í fyrsta lagi fólk eins og ég og þú Ásmundur. Munurinn er hins vegar sá að hvorki ég né þú þurfum að flýja stríðshörmungar, ofsóknir eða dauða. Munurinn aftur á móti á mér og þér er mikill. Ég get nefnilega sett mig í spor þeirra hælisleitenda sem sækja hér um hæli. Ég þekki af eigin raun hvað það er að vera á flótta í stríðsástandi, vera ofsótt af hermönnum og mega ekki sofa heima hjá mér, þangað sem fólk var sótt og drepið. Vera hrædd um líf mitt og fjölskyldu minnar dögum og árum saman. Finna aldrei frið og öryggi. Ég nefnilega upplifði stríðsástand í mínu heimalandi í heil fjögur ár áður en ég fékk að koma til Íslands.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Þú lætur þér í léttu rúmi liggja að stjórnvöld á Íslandi eru bundin af flóttamannasamningi Sameinuðu þjóðanna og alþjóðlegum mannréttindasáttmálum sem banna brottvísun til heimalands eða annars ríkis þar sem lífi eða mannhelgi einstaklinga er stofnað í hættu eða fólk á í hættu að verða fyrir ofsóknum.

Það hefur oft áður verið farið yfir staðreyndir um hælisleitendur og Þórður Snær Júlíusson gerði það nýlega á fréttamiðlinum Kjarnanum í grein sem hefur yfirskriftina „Hver ætlar að bera ábyrgð á Ásmundi Friðrikssyni?“ Ég hvet til lesturs á henni.

Hins vegar ætla ég benda þér á að mjög margir hælisleitenda hverfa af landi brott áður en umsóknir þeirra eru afgreiddar. Mörgum er einnig vísað úr landi á grundvelli Dyflinnarreglugerðarinnar. Þú manst, reglugerðarinnar sem við þurfum ekki að uppfylla. Við sendum fólk hiklaust til ríkja sem eru á lista „öruggra ríkja“, jafnvel þó við vitum að þau séu ekki jafn örugg og af er látið og á það hafa virt mannréttindasamtök og alþjóðastofnanir, eins og Flóttamannastofnun Sameinuðu þjóðanna, bent á ítrekað.

Mig langar líka að minna þig Ásmundur á að atvinnuleysi hefur ekki mælst jafn lítið í sögunni. Það eru hins vegar 25.000 útlendingar á vinnumarkaði hér. Þeir borga hér skatta og sinna samfélagslegum skyldum. Ég vona að þú vitir það. Það að ala á andúð og ótta gagnvart útlendingum er í besta falli eins og að pissa í skóinn sinn því íslenskt hagkerfi þarf svo sannarlega á fleiri vinnandi höndum að halda í þeim verkefnum sem blasa hér við. Þú ætlar væntanlega ekki sjálfur að leggja vegi um allt Suðurland, leysa úr samgöngumálum til Vestmannaeyja, stækka flugstöðina um tugi þúsunda fermetra eða byggja íbúðir fyrir þá sem hér búa. Nei. Til þess þarf vinnandi hendur sem eru ekki til í þessu landi nema af skornum skammti.

Sjálfstæðismenn stilltu þér upp í annað sæti á lista sinn í Suðurkjördæmi þrátt fyrir þínar skoðanir sem flokksforystan hefur þó hafnað. Það sem vekur sérstaka athygli er þó það að í nýlegri grein þinni lýsir þú verulegum áhyggjum af ellilífeyrisþegum og öryrkjum. Þér væri hollt að rifja upp eigin gjörðir í því samhengi. Ekki síst þar sem þú, sem formaður Þroskahjálpar á Suðurnesjum, greiddir atkvæði gegn leiðréttingu á launabótum til ellilífeyrisþega og öryrkja þegar sú tillaga kom fram í þinginu síðla árs 2015. Í annan stað þáðir þú með þökkum verulega kjarabót úr hendi Kjararáðs, sem þingmaður, þegar laun þín hækkuðu um 45%, úr 760.000 kr. í 1.100.000. Mánaðarleg hækkun á launum þínum nam því 340.000 kr. eða því sem nemur dagpeningum hælisleitanda í tæpa 11 mánuði. Og bara hækkunin sem þú þáðir er talsvert hærri en þær krónur sem ellilífeyrisþegum er úthlutað mánaðarlega frá TR. Þú hefur því ekki bara svikið saklaust fólk sem hrekst hingað undan stríðshörmungum heldur líka þína eigin umbjóðendur hjá Þroskahjálp Suðurnesja.

Það væri óskandi að kjörnir fulltrúar nýttu ekki vinnutímann sinn til að etja saman ólíkum og ósamanburðarhæfum hópum heldur leitaði lausna á almannahag. Í því samhengi minni ég þig á kröfur almennings um sanngjarnt auðlindagjald af fiskveiðiauðlindinni sem þið Sjálfstæðismenn hafið verið óviljugir að koma á.

Jasmina Crnac,
Stjórnmálafræðinemi og frambjóðandi Bjartar framtiðar í 1. sæti í Suðurkjördæmi