Hættu í feluleiknum Böðvar!
Enn á ný ákveður bæjarfulltrúinn Böðvar Jónsson að svara skrifum mínum með skætingi og vísvitandi rangfærslum með það að markmiði að beina umræðunni frá alvarleika málsins.
Raunar er Böðvar kominn út á hálan ís þegar hann fullyrðir að það sé beinlínis rangt að færa stóran hluta leigusamninga Reykjanesbæjar við Fasteign hf. í efnahagsreikning Reykjanesbæjar. Ég hefi birt reglur þær sem gilda og raunar sýnt fram á það á hversu gráu svæði ársreikningur Reykjanesbæjar er.
Hugmyndir mínar um það hvernig eigi að meðhöndla rekstrarleigusamninga í ársreikningum sveitarfélaga sótti ég m.a. beint í smiðju þriggja sjálfstæðismanna. Gunnar I. Birgisson, Pétur H. Blöndal og Guðlaugur Þ. Þórðarson ræddu þessi mál á nýafstöðnu Alþingi en þar lýstu þeir allir því yfir að skuldbindingar eins og þær sem hér um ræðir skuli færa sem skuld í efnahagsreikningi sveitarfélaga.
Telur Böðvar Jónsson bæjarfulltrúi og fasteignasali hér í bæ, að þessir þrír virtu alþingismenn Sjálfstæðisflokksins tali af vanþekkingu eða séu að reyna vísvitandi að blekkja fólkið í landinu ? Böðvar hikar ekki við að saka mig um slíkt. Spurning hvernig hann lítur á sína eigin flokksmenn?
Ég er ekki að tala illa um okkar góða sveitarfélag né að reyna að sverta ímynd þess. Ég tel mig reyndar búa í landsins besta sveitarfélagi. Það er alveg ljóst að tækifæri til uppbyggingar eru nær óþrjótandi og því miklir möguleikar til að skapa fyrirmyndarsamfélag.
Þegar ég settist niður og vakti athygli á þessum staðreyndum varðandi fjárhag sveitarfélagsins taldi ég og tel mig enn vera að gera skyldu mína sem íbúi í Reykjanesbæ. Framsetning og samanburðarfræði bæjarstjórans við kynningu á fjárhag sveitarfélagsins á nýafstöðnum íbúafundum er vægast sagt hagræðing á sannleikanum og því ekki hægt annað en að vekja athygli á þessum staðreyndum.
Komum heiðarlega fram og hættum í feluleik, þannig munum við ná árangri og gera gott samfélag betra.
Eysteinn Jónsson
Formaður Fulltrúaráðs Framsóknarfélaganna í Reykjanesbæ.