Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Aðsent

Miðvikudagur 23. apríl 2003 kl. 22:03

Hættu að ljúga Jón Gunnarsson

Það er orðið slæmt ef menn þurfa að taka diktafon eða upptökutæki með sér á kosningafundi. Svo virðist vera þegar Jón Gunnarsson “frambjóðandi Samfylkingar í felum” er einn af frummælendum. Það er með ólíkindum hvernig Jón skrifar um alþingismann okkar Suðurnesjamanna til margra ára háttvirtan Hjálmar Árnason sem ég leyfi mér að fullyrða sé einn af okkar virtustu þingmönnum fyrr og síðar.Snúum okkur að skrifum Jóns; Jón skrifar orðrétt

“Ástæða þessara skrifa minna núna er grein Hjálmars inn á vefsíðu Framsóknarflokksins þar sem hann er að skrifa um sjávarútvegsmál. Þar segir hann að undirritaður hafi á framboðsfundi á Ránni lýst því yfir að útgerðarmenn innan ESB ættu að hafa fullt leyfi til að bjóða í aflaheimildir á Íslandsmiðum eftir innköllun veiðiheimilda samkvæmt tillögum Samfylkingarinnar. Honum finnst í sömu grein, byggt á sinni eigin rangfærslu, það vera umhugsunarefni að Samfylkingin vilji hleypa útlendingum inn í landhelgi okkar. Það sem Hjálmar heldur þarna fram er fjarri öllum sannleika og í raun óskiljanlegt hvernig hann snýr hlutum upp í andhverfu sína. Á umræddum fundi sagði ég að í óbreyttu fiskveiðistjórnunarkerfi, þar sem útgerðir enduðu sem eigendur kvótans, gæti verið hætta á því að erlendir aðilar eignuðust varanlegar aflaheimildirnar á Íslandsmiðum með kaupum á hlutabréfum í útgerðarfyrirtækjunum. Aldrei var minnst á að útlendingar ættu að eiga möguleika á að bjóða í leiguheimildir, enda er það alls ekki á stefnuskrá Samfylkingarinnar að þannig verði búið um hnútana.”

Hið rétta í málinu er að í fyrirspurnatíma fundarins stóð ég upp og spurði Jón út í sjávarútvegsstefnu Samfylkingarinar, en spurning mín var svo hljóðandi:

“Jón, á stjórnmálafundi Samfylkingarinar á Hótel Selfossi fyrr í mánuðnum talaði Ingibjörg Sólrún um fyrningarleið og að hún sæi fyrir sér að aflaheimildir í landhelgi Íslands yrðu boðnar upp á frjálsum markaði og að hæstbjóðandi fengi veiðiheimildirnar, nú er ég með plagg fyrir framan mig sem á stendur að Samfylkingin vilji sækja um aðild að Evrópusambandinu sem er jú eitt markaðssvæði. Því spyr ég, er það þá ætlun Samfylkingarinar að leyfa útlendingum að bjóða í aflaheimildir í landhelgi Íslands á frjálsum markaði innan Evrópusambandsins ?

Svar Jóns var svohljóðandi:
Já, Eysteinn, ég er ekki hræddur við útlendinga enda munum við tryggja að afli veiddur innan landhelgi Íslands sé landað á Íslandi.

Kjarni málsins í þessu svari Jóns er að hann er fylgjandi því að bjóða upp aflaheimildir í landhelgi Íslands innan Evrópusambandsins og það er það sem Hjálmar sagði okkur frá í grein sinni.

Hjálmar hefur ávallt sagt satt, ég veit hins vegar ekki með Jón Gunnarsson, en það má segja frá að í framsögu erindi Jóns Gunnarssonar á umræddum fundi var hann einnig með rangfærslur sem hann varð að viðurkenna síðar á fundinum fyrir fundarmönnum.

En kjarni málsins er sá að Samfylking vill sækja um aðild að Evrópusambandinu og er tilbúinn til að leyfa útlendingum að vera með í að bjóða í veiðiheimildir innan landhelgi Íslendinga og þar með leyfa erlendum skipum að veiða fisk í íslenskri landhelgi.

Eysteinn Jónsson
Kosningastjóri Framsóknarflokksins í Suðurkjördæmi.
Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024