Karlakór Kef kertatónleikar
Karlakór Kef kertatónleikar

Aðsent

  • Ha? Barnið mitt?
  • Ha? Barnið mitt?
Mánudagur 6. apríl 2015 kl. 10:00

Ha? Barnið mitt?

– Drífa B. Gunnlaugsdóttir, móðir iðkanda í NES skrifar

Ég hef ávallt talið mig vera frekar fordómalausa, vel félagslega þenkjandi og almennt vel upplýstan einstakling. Ég er félagsráðgjafi að mennt og var að klára námið þegar sonur minn Leó Austmann fór í greiningu. Þegar Leó var 5 ára fékk hann formlega greiningu hjá Greiningarstöð ríkisins, dæmigerð einhverfa og þroskahömlun. Áfallið var mikið í byrjun, við  vissum ávallt að eitthvað var að en þarna varð það eitthvað svo endanlegt. Við hjónin settumst fljótlega eftir greiningu niður og fórum yfir allt umhverfið í kringum strákinn, hverju þyrfti að breyta, hvað væri gott eins og það væri og fleira. Fórum yfir búsetu okkar, vinnutíma okkar, dvöl og aðstoð á leikskólanum, vini og allt sem tengdist hans félagslegu stöðu. Aldrei ræddum við um íþróttir fyrir hann eða veltum því fyrir okkur hvar væri best fyrir hann að æfa íþróttir, við töldum bara einhverra hluta vegna að íþróttir yrðu ekki hluti af hans umhverfi.

Oft verða tilviljanir í lífinu sem breyta miklu

Oft verða tilviljanir í lífinu sem breyta miklu og svo varð hjá okkur sem betur fer. Sumarið áður en Leó átti að hefja nám í grunnskóla var auglýst sundnámskeið fyrir börnin í Vogunum. Sá sem var með sundnámskeiðið hét Ingi Þór Einarsson sem margir þekkja er tengjast sundi fatlaðra. Ég mæti með Leó á námskeiðið full efasemda um hvort hann geti verið með hinum börnunum og hvort þjálfarinn ráði við eða skildi fötlun hans. Ingi er fljótur að taka hann í laugina og vísa mér frá á meðan æfingin var með orðunum „hvað af hverju ætti hann ekki að geta verið með“.  Þar með var sundáhugi Leós komin og sáum við foreldrar hvað hann naut þess að vera á æfingum. Þá fyrst fórum við að ræða um hvort íþróttir ættu að vera hluti af hans félagslega umhverfi og hversu gott það væri fyrir hann. En efinn var mikill þar sem við sáum fyrir okkur að það eina sem væri í boði væri að æfa með almennu félagi þar sem önnur börn væru almennt getumeiri en hann. Hræðslan var að sá áhugi sem var komin myndi hverfa hratt ef hann væri ávallt síðastur að öllu á æfingum. Sonur okkar er með mikið keppniskap og hjá honum skiptir alltaf miklu máli í hvað sæti hann er, hvort sem það er á æfingu eða móti þá er árangurinn skráður. Þegar sundnámskeiðinu lauk talaði Ingi við okkur foreldrana og hvort við vildum ekki koma með strákinn í NES- Íþróttafélag fatlaðra á Suðurnesjum. Viðbrögð okkar beggja var „Ha – Barnið okkar, af hverju?“ Aldrei hafði hvarflað að okkur að hann ætti rétt á eða erindi í að æfa íþróttir með fötluðum. Eftir að hafa rætt þetta aðeins og Ingi sannfært okkur um að sonur okkar ætti fullt erindi inn í það íþróttafélag ákváðum við að mæta á kynningarkvöld hjá NES og í kjölfarið ákváðum við að prófa að leyfa honum að æfa einn vetur hjá NES. Besta ákvörðun sem við gátum tekið.



Sundtökin á vatnsheldum miðum

Hann var rosa ánægður þegar hann byrjaði að æfa sund með NES, en átti erfitt með að taka við munnlegum leiðbeiningum frá þjálfara og muna þær alla leiðina yfir sundlaugina. Við vorum svo heppin að Katrín Ruth Þorgeirsdóttir, þroskaþjálfi, sem er  aðstandandi og ritari stjórnar NES bauðst til þess að aðstoða við að finna lausn. Hún hannaði vatnshelda miða sem voru með sundtök framan á og broskarl aftan á, hver sundgrein var með sérstakan lit og prófaði Ingi að nota þetta kerfi og þetta var algjör bylting. Hann varð miklu öruggari á æfingum og fékk hvatningu eftir hverja ferð, nokkuð sem hann þurfti á að halda. Hann notar ekki miðana lengur enda búinn að æfa sund í bráðum 4 ár hjá NES en hann notar ennþá litaflokkunina á sundgreinum.

Ég er enn stundum spurð að því af hverju strákurinn minn æfir ekki sund í sínu bæjarfélagi, yrði svo miklu einfaldara fyrir okkur. Jú það má vera að það sé rétt en þetta snýst ekki um okkur foreldrana heldur um hvað er best fyrir hann og það er klárlega að æfa með íþróttafélagi fatlaðra að okkar mati. Hann þarf að vera á æfingum þar sem honum er mætt á þeim stað sem hann er á hverju sinni, þar sem æfingar eru einstaklingsmiðaðar og iðkendur fá þann stuðning og umhverfi sem þau þurfa hverju sinni. Almennu félögin eru flest mjög góð en það eru almennt fleiri börn að æfa á móti hverjum þjálfara en hjá íþróttafélögum fatlaðra og er það vegna þess að þau þurfa meiri stuðning og aðstoð á æfingum, sérstaklega þegar þau eru minni. Sumir eiga við líkamlega fötlun að stríða og aðrir við andlega fötlun en öll þurfa þau yfirleitt einhvern stuðning til að læra að æfa íþróttir. Þegar um er að ræða andlega fötlun eins og hjá okkar barni þá sést það kannski ekki alltaf á þeim og þess vegna held ég að ég fái svona oft þessa spurningu um af hverju hann æfi með NES og er eflaust líka ástæðan fyrir okkar eigin efa um að hann ætti erindi að æfa með íþróttafélag fatlaðra.

Sonur minn hefði alveg getað æft með almennu félagi en ég tel að hann hefði aldrei náð þeim árangri sem hann hefur náð í sundi í dag og íþróttaáhugi hans hefði ekki orðið svona mikill. Hann talar um að það er gaman að æfa íþróttir en ekki í skólanum og ekki í frímínútum sem staðfestir þá skoðun okkar að hann þurfi og eigi að æfa með íþróttafélagi fatlaðra þar sem hann fær að njóta sín á jafnréttisgrundvelli og á möguleika á að vera góður, jafnvel fyrstur. Hann er svo upptekinn af því að æfa íþróttir í dag að hann er líka í frjálsum og í íþróttaskóla þar sem þemabundnar æfingar eru.



Mikil þekking til innan íþróttafélaga fatlaðra

 Það er mikil þekking til innan íþróttafélaga fatlaðra og tel ég að það er einn auka bónus af því að fara með barnið mitt á æfingar hjá NES. Ég hitti aðra foreldra sem skilja mig svo vel, hafa gengið í gegnum svipaða hluti oft og það er ómetanlegt. Foreldrar skiptast á reynslu, vitneskju um réttindi, deila sigra barna sinna og fleira. Þetta tengslanet er og á ávallt að vera hluti af svona starfsemi að mínu mati. Þó svo að fjölskyldur flestra sýni mikin skilning og stuðning þá er ýmislegtsem þeir skilja ekki sem  eiga ekki fatlað barn.

Við höfum líka verið mjög heppin með NES, það er mikið félagslíf innan félagsins. Mánaðarlegir hittingar sem auka tengsl og samskipti á milli iðkenda og aðstandenda sem er bara af hinu góða. Mikið er í boði fyrir iðkendur og hefur Leó verið duglegur að nýta sér það flest og þykir fátt skemmtilegra en að fara til NES hvort sem það er á æfingu eða hitting, skiptir ekki öllu máli, bara að vera með. Hann hefur eignast marga góða vini í gegnum NES sem er mikil styrking fyrir hann félagslega. Hann hefur líka farið tvisvar til Malmö að keppa í sundi með NES og ferðirnar verið alveg frábærar og mikil upplífun.

Það er erfitt að koma því til skila með orðum hvað sundið og æfingarnar hjá NES hafa gefið honum. Hann hefur fengið mikla sjálfsstyrkingu, sjálfsaga og mikilvæga hreyfingu og er þá fátt eitt talið. Hann veit að hann getur verið góður í íþróttum, hann veit að hann er ekki sá eini sem er ekki að passa inn í „normal“ kassann, hann er sem sagt ekki einn í sinni stöðu. Hann hefur hitt aðra krakka sem eru eins og hann eða hafa aðrar fatlanir en geta samt gert allt eins og hann, það er mjög þroskandi að upplifa það. Hann lýsir því best sjálfur af hverju hann á að æfa með NES. Þegar tveir vinir hans voru að spyrja hann af hverju hann vildi æfa með NES en ekki Þrótti (sem er í okkar bæjarfélagi) svaraði hann fljótt og örugglega:

„Af því það er betra fyrir mig, ég er sko líka góður í íþróttum.“

Drífa B. Gunnlaugsdóttir
Móðir iðkanda í NES


Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024