Gylliboð?
Forsíðufrétt Víkurfrétta í síðastliðinni viku bar yfirskriftina: „GYLLIBOÐ TIL BÆJARBÚA ÞJÓNA ENGUM TILGANGI“. Til þess að halda til haga málflutningi okkar sjálfstæðismanna viljum við ítreka eftirfarandi punkta sem allir komu fram í umræðum um okkar tillögu á síðasta bæjarstjórnarfundi:
- Fasteignaskattar reiknast út frá fasteignamati.
- Í ár hækkar matið mest í Reykjanesbæ eða um 37,7%.
- Fasteignagjald samanstendur af fasteignaskatti, lóðarleigu, fráveitugjaldi, vatnsgjaldi og sorpgjaldi.
- Gjöldin hafa verið hæst í Reykjanesbæ þrjú ár í röð.
- Fasteignamat á Akureyri er hærra en í Reykjanesbæ samt eru gjöldin þar mun lægri.
- Gjöldin í Grindavík eru 57% af gjöldunum hjá okkur.
- Meirihlutinn í Reykjanesbæ lækkaði álagningarprósentuna á síðasta ári eftir eftirfylgni sjálfstæðismanna í bæjarstjórn. Það var gott skref en betur má ef duga skal.
- Tekjur bæjarins á næsta ári eru áætlaðar rúmir fimmtán milljarðar.
- Tillögur okkar eru hógværar og nema um 0,7% af heildartekjum og þarft skref til að mæta gríðarlegri hækkun fasteignamats.
- Hin svokölluðu Magma-bréf færa bænum rúma 4 milljarða sem ekki var gert ráð fyrir.
- Reykjanesbær er því að fara aftur undir 150 prósenta skuldaviðmið mun fyrr en áætlað var.
- Stjórnskipulagsbreytingar meirihlutans sem við höfum gagnrýnt mjög eru bæði kostnaðarsamar, illa útfærðar og til þess fallnar að auka báknið.
- Fasteignaskattur er íþyngjandi kostnaðarauki fyrir almenning og fyrirtæki og kemur niður á samkeppnishæfni sveitarfélagsins.
Það er mjög einkennilegt að ráðast í stjórnskipulagsbreytingar upp á vel á annað hundrað milljónir króna, byggja einn dýrasta grunnskóla landsins upp á rúma 4 milljarða króna og setja 250 milljónir í heita potta og rennibraut en á sama tíma kalla tillögu um 100 milljón króna lækkun á tekjum frá fasteignasköttum gylliboð. Tekjur til Reykjanesbæjar af fasteignasköttum eru að hækka enn og aftur upp í 1.800 milljónir í fjárhagsáætlun fyrir árið 2020 og hafa vaxið um 53% frá 2015 eða um 630 milljónir króna. Bæjarbúar hafa aldeilis fundið fyrir því og ítrekað kallað eftir aðgerðum. Sjálfstæðismenn lögðu því fram tillögu um 100 milljón króna lækkun í fjárhagsramma skatttekna í drögum að fjárhagsáætlun fyrir 2020. GYLLIBOÐ?
Ríkharður Ibsen,
varabæjarfulltrúi
Sjálfstæðisflokksins.