Guðný Hrund á þing – stöndum saman Suðurnesjamenn
Um næstu helgi verður kosið um það hvaða pólitísku öfl verða ráðandi í landinu næstu fjögur árin. Á síðastliðnum árum hefur þjóðfélagið tekið miklum breytingum. Þjóðfélagsbreytingum sem ættu að leiða til bættra kjara fyrir alla.
Það hefur síður en svo verið raunin og eins og tölur sanna þá eru ákveðnir hópar okkar á meðal sem orðið hafa af því góðæri. Má þar fyrst nefna eldri borgara sem bæði hafa hlutfallslega mun lægri tekjur nú en fyrir 10 árum auk þess sem þeir hafa orðið afgangsstærð þegar til þeirrar staðreyndar kemur að þurfa hjúkrunarrými við hæfi á efri árum. Í dag eru yfir 30 manns á biðlista, í brýnni þörf hér á Suðurnesjum eftir hjúkrunarrými og ekki fyrirséð að úr því verði leyst í bráð. Fólk sem hefur skilað samfélaginu okkar lífsstarfi sínu á slíka framkomu ekki skilið. Okkur var lofað að við fengjum nýtt hjúkrunarheimili á þessu ári en málið er nú í hnút.
Málefni eldri borgara ásamt ýmsum öðrum málum er snúa að nærþjónustu við borgarana var í brennidepli á síðasta þingi Sambands Íslenskra Sveitarfélaga og þar voru lagðar fram ályktanir sem samþykktar voru af öllum hvar í flokki sem þeir voru um að sveitarfélögin ættu tafarlaust að taka þennan málaflokk yfir. Ástæðan var fyrst og fremst sú að ríkið væri ekki að standa sig.
Ályktanir af þessu tagi segja sitt og nú er tækifærið til að skipta um í brúnni. Við höfum á að skipa einvala liði í Samfylkingunni í Suðurkjördæmi sem og annarsstaðar á landinu og það er okkur kappsmál að fá unga konu sem hefur hjartað á réttum stað, þor til að taka ákvarðanir og drifkraft til að framkvæma. Síðustu skoðanakannanir sýna að Guðný Hrund á mjög góðan möguleika á að komast inn á Alþingi ef við Suðurnesjamenn stöndum saman og setjum x við S á kjördag, hvert atkvæði skiptir máli.
Gleðilegt sumar,
Sveindís Valdimarsdóttir
Bæjarfulltrúi A-listans í Reykjanesbæ